ÍSOR og Veðurstofan ekki inni í sameiningunni

ÍSOR og Veðurstofa Íslands verða ekki sameinaðar undir nýja Náttúruvísindastofnun.
ÍSOR og Veðurstofa Íslands verða ekki sameinaðar undir nýja Náttúruvísindastofnun. Samsett mynd

ÍSOR og Veðurstofa Íslands verða ekki sameinaðar undir nýja Náttúruvísindastofnun eins og upphaflega stóð til. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir í samtali við mbl.is ástæðuna vera sérstöðu ÍSOR. Þá séu ekki forsendur fyrir því að taka Veðurstofuna inn í sameininguna án ÍSOR.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur á undanförnum mánuðum unnið að sameiningu þeirra stofnana sem starfa á vegum ráðuneytisins. 

Nú liggur fyrir að Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og Veðurstofa Íslands verða ekki með í sameiningu stofnanna undir nýrri Náttúruvísindastofnun eins og upphaflega var lagt til.

Sameining ÍSOR myndi þarfnast ítarlegrar skoðunar

„Það sem hefur breyst í samráðsferlinu er að ÍSOR verður áfram sjálfstæð stofnun. Það myndi þarfnast mun ítarlegri skoðunar ef sameina ætti hana við A-hluta stofnanir þar sem hún er byggð á sértekjum,“ segir Guðlaugur.

ÍSOR er B-hluta stofnun en með því er átt við að tekjur hennar byggi alfarið á tekjum af samningsbundnum verkefnum á samkeppnismarkaði. Að þessu leyti skilur hún sig frá öðrum stofnunum sem sameina á undir Náttúruvísindastofnun, það er Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (Ramý) og Landmælingar Íslands.

Sérstaða ÍSOR lá fyrir frá upphafi

Guðlaugur segir að legið hafi fyrir frá upphafi að skoða þyrfti stöðu ÍSOR sérstaklega. „Meginástæðan er sú að ÍSOR byggir á samkeppnisrekstri. Ef hún yrði gerð að A-hluta stofnun myndi það kalla á mikið utanumhald til þess að skilja samkeppnisreksturinn frá öðru."

Niðurstaðan kemur semsagt ekki á óvart. „Sérstaða ÍSOR lá alltaf fyrir. Við tókum það engu síður til skoðunar hvort hún gæti fallið undir nýja Náttúruvísindastofnun. Niðurstaðan er sú að það gengur ekki upp.“

Fellur um sjálft sig að hafa Veðurstofuna inni án ÍSOR 

Þá verður Veðurstofa Íslands heldur ekki með í sameiningunni. „Helsta hagræðið með sameiningunni var að Veðurstofan og ÍSOR myndu renna saman. Þannig að þegar niðurstaðan er sú að við getum ekki sameinað ÍSOR inn í Náttúruvísindastofnun þá fellur það um sjálft sig að hafa Veðurstofuna inni.“

Auk ÍSOR og Veðurstofunnar eru þrjár aðrar stofnanir ekki inni í sameiningunni. Þetta eru Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála, Úrvinnslu­sjóður og Stofn­un Vil­hjálms Stef­áns­son­ar.

Sameiningin mælist almennt vel fyrir

Sameiningin mælist almennt vel fyrir á meðal stofnana ráðuneytisins að sögn Guðlaugs. „Ég held að mikilvægi þess að sameina og efla stofnanir á þessu sviði sé öllum ljóst. Þær eru margar og þær eru of litlar. Það má einnig taka fram að við erum ekki bara að líta á skilvirkni og hagkvæmni heldur sömuleiðis að flytja starfsemi í auknum mæli út á land.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert