Jarðskjálftar hættir að koma á óvart

Bláa Lónið hefur á síðustu árum þurft að gera ráðstafanir …
Bláa Lónið hefur á síðustu árum þurft að gera ráðstafanir vegna eldgosahættu. Nú þurfa þau að undirbúa sig á nýjan leik. Árni Sæberg

Bláa Lónið býr sig enn og aftur undir hugsanlegt eldgos á Reykjanesskaga. Starfsemi helst óbreytt eins og staðan er nú. Helga Árnadóttir, framkvæmdarstjóri hjá Bláa Lóninu, segir að jarðhræringarnar séu hættar að koma starfsfólki á óvart.

Yfir tvöþúsund skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga síðan í gærkvöld, sá stærsti af stærðinni 4,8, og jarðskjálftafræðingar hafa fylgst grannt með stöðunni á Suðurnesjum. Rík­is­lög­reglu­stjóri lýsti í gær yfir óvissustigi almannavarna í sam­ráði við lög­reglu­stjór­ann á Suður­nesj­um vegna jarðskjálftahrinunnar.

„Við erum bara að undirbúa okkur á nýjan leik eins og við gerðum í fyrra og árið þar á undan,“ segir Helga við mbl.is.

Segir hún fyrirtækið hafa verið í miklum samskiptum við yfirvöld um stöðuna á Reykjanesskaga. „Búið er að lýsa yfir óvissustigi, þannig við erum að fylgjast vel með og tökum því alvarlega. Við undirbúum okkur og uppfærum eins og við getum á þessum tímapunkti.“

Starfsmenn orðnir vanir

Mikil skjálftavirkni var við Fagradalsfjalli í fyrra og árið þar á undan í aðdraganda eldgosanna. Því eru starfsmenn lónsins margir orðnir þaulreyndir af slíkum jarðhræringum en nú spá margir fyrir enn öðru gosi á svæðinu, þriðja árið í röð.

„Þetta er alla vega ekki lengur að koma starfsfólki á óvart,“ segir Helga, spurð hvort starfsfólk sé orðið þreytt á sífelldum skjálftum.

„Við þekkjum vel til svona hræringa. Menn fara bara í sín hlutverk og auðvitað er aðalmálið að halda starfsmönnum og hótelgestum sem best upplýstum um stöðu mála að hverju sinni, en annars er starfsemin að öllu leyti óbreytt.“

Helga kveðst ekki vita hvort hugsanlegt eldgos muni hafa bein áhrif á starfsemi lónsins en seinustu gos sem urðu í Fagradalsfjalli höfðu lítil sem engin bein áhrif á starfsemina.

„Eins og ég les í stöðuna og eins og komið hefur fram í fréttum þá virðast hræringarnar fyrst og fremst vera á þeim stað þar sem gaus síðast og hafa frekar verið að færa sig norð-austur,“ segir Helga.

Helga Árnadóttir, framkvæmdarstjóri hjá Bláa Lóninu.
Helga Árnadóttir, framkvæmdarstjóri hjá Bláa Lóninu.

Taka ekki eftir mikilli hræðslu meðal gesta

Helga segir að starfsfólk hafi ekki tekið eftir því að viðskiptavinir séu skelkaðir við hræringarnar. Fyrir suma sé þetta jafnvel bara framandi upplifun.

„Við erum ekki að upplifa einhverja hræðslu hér í húsi. Þetta er upplifun fyrir suma og aðrir þekkja vel til svona hræringa en þarna snýst þetta um að upplýsa eins mikið og hægt er,“ segir Helga. „Allar okkar byggingar eru mjög vel hannaðar til að takast á við náttúruvá sem þessa. Við erum auðvitað búin að yfirfara okkar neyðaráætlanir og fara yfir þær með starfsfólki,“ segir hún.

„Auðvitað eru byggingarnar hannaðar og byggðar til að takast á við töluvert meiri eða sterkari jarðskjálfta en við þekkjum hingað til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert