Skjálftarnir fara stækkandi

Ferðamenn við Fagradalsfjall í dag.
Ferðamenn við Fagradalsfjall í dag. mbl.is/Kristófer Liljar

Jarðskjálftahrinan sem hófst í gær, á milli Fagradalsfjalls og Keilis, liggur í norðaustur-suðvesturstefnu.

Hrinan byrjaði á þekktu uppstreymissvæði kviku undir Fagradalsfjalli, nærri staðnum þar sem innskot kviku hófst í júlí á síðasta ári, með upptök á um 8 km dýpi.

Hrinan grynntist upp í um 4 km dýpi á þeim fimm klukkustundum sem liðu frá því hún hófst.

Skjálftar hafa í morgun mælst á um 2-3 km dýpi. Stærð þeirra hefur farið vaxandi eftir því sem liðið hefur á hrinuna og hafa sjö skjálftar stærri en 4 orðið í morgun.

Á vef Veðurstofunnar er greint frá því að virknin sé áþekk þeim skjálftahrinum sem urðu á svæðinu í febrúar-mars og desember árið 2021, og í júlí-ágúst á síðasta ári.

Tvær þeirra enduðu með eldgosi en ein þeirra ekki, þ.e. sú sem varð í desember 2021.

Geti verið undanfari goss á næstu stundum eða dögum

Hrinan nú er talin vera vegna nýs kvikuinnskots á milli Fagradalsfjalls og Keilis, að því er segir á vef Veðurstofunnar.

„Nánar tiltekið svipar yfirstandandandi hrinu til þeirrar sem hófst 30. júlí 2022 þegar innskot varð á sama svæði og endaði með eldgosi fjórum dögum síðar, þann 3. ágúst 2022.“

Talið er líklegt að þessi aukna virkni geti verið undanfari eldgoss á næstu stundum eða dögum. Þó getur virknin hætt án þess að til eldgoss komi, en með tilliti til líkinda yfirstandandi hrinu og hrinunnar í júlí og ágúst 2022 eru taldar vera auknar líkur á eldgosi.

Aflögun tengd innskotinu og jarðskjálftavirkninni er talin geta komið af stað gikkskjálftum á öðrum sprungum á Reykjanesskaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert