Björn Ingi Hilmarsson leikari var staddur uppi í 60 metra byggingarkrana í morgun þegar jarðskjálfti af stærðinni 4,8 reið yfir. Hann fann vel fyrir skjálftanum og segir í samtali við mbl.is að byggingarkraninn hafi sveiflast eins og tré í vindi. Hann hafi þó verið hvergi smeykur.
Byggingarkraninn, sem er um 60 metra hár, er staðsettur í miðbæ Reykjavíkur á horni Laugavegs og Vatnsstígs.
Björn Ingi, sem er sumarstarfsmaður á byggingarkrananum, segist hafa fundið vel fyrir jarðskjálftanum sem varð klukkan tuttugu mínútur yfir átta í morgun. Var hann 4,8 að stærð og átti upptök sín undir Fagradalsfjalli.
„Það hristist allt og kraninn sveiflaðist til eins og tré í vindi,“ segir Björn Ingi.
Aðspurður segist Björn Ingi ekki hafa fundið mikið fyrir öðrum skjálftum sem riðið hafa yfir í dag.
„Svona byggingarkrani er í raun alltaf eitthvað að hristast á meðan maður er að vinna og hífa upp alls konar hluti. Mögulega var ég með kranann á hreyfingu og fann því ekki jafn mikið fyrir hinum skjálftunum.“
Hann hafi ekki vitað hvaðan á sig stæði veðrið þegar kraninn fór á fleygiferð um hálfníuleytið í morgun.
„Ég var kominn upp í kyrrstæðan kranann þegar hann fer skyndilega á fulla ferð og hristist allur. Þá heyrði ég í útvarpinu að um væri að ræða jarðskjálfta og áttaði mig. Eftir á fannst mér þetta dálítið fyndið.“
Björn Ingi segist hvergi hafa verið smeykur þrátt fyrir að vera staddur í þessari miklu hæð.
„Maður heldur sér bara í og vonar það besta. Nei, ég segi svona. Ég hef aldrei áður verið í krana af þessari stærðargráðu í jarðskjálfta af þessari stærðargráðu. Ég hugsa að þetta sé alls ekki gaman ef skjálftarnir verða enn öflugri,“ segir Björn Ingi og bætir við að byggingarkranar séu þó hannaðir til þess að standa af sér ýmislegt.
Hann veigrar sér ekki við því að fara aftur upp í kranann á morgun þrátt fyrir að líkur séu á því að skjálftahrinan haldi áfram. Úr krananum horfir hann í átt að gossvæðinu.
Þú verður kannski fyrstur til að sjá eldgosið ef það hefst?
„Ég er að vonast eftir því, ég er allavega með mjög gott útsýni ef eitthvað skyldi gerast.“