Bylgjuvíxlmynd sem spannar 28. júní til 6. júlí sýnir vel aflögun vegna kvikuinnskotsins við Fagradalsfjall.
Innskotið er afmarkað við lítið svæði milli Fagradalsfjalls og Keilis þó svo að aflögunarmerki sjáist víða um vestanvert Reykjanesið. Engin merki um kvikuhreyfingar eru sjáanlegar annars staðar.
Frá þessu er greint á vef Veðurstofunnar.
„Endurtekið litamynstrið gefur til kynna hversu mikil færsla mælist í stefnu að gervitunglinu (Line of sight). Tvö hringlaga merki frá norðvestri til suðausturs sýna vel aflögun vegna kvikuinskotsins sem hófst 4. júlí og er um miðja vegu mill Fagradalsfjalls og Keilis. Mesta aflögun sem mælist vegna innskotsins eru allt að 18 cm norðvestan við innskotið og 15 cm suðaustan við það,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Um 4.700 jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis frá því að hrinan hófst á þriðjudaginn.
Stærsti skjálftinn varð í gærmorgun klukkan 8.21 og mældist 4,8 að stærð.