Aftur sést mikil mengun úr einu skemmtiferðarskipi sem liggur í Akureyrarhöfn og mbl.is fékk sent. „Þetta er alls ekki eins og við viljum hafa þetta,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.
Svipað mál kom upp fyrr í vikunni. Að þessu sinni leggur reykinn úr skorsteini skipsins og inn Eyjafjörð, eins og sést í meðfylgjandi myndbandi.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, þekkti málið þegar mbl.is hafði samband.
Hún vill ekki kannast við áhugaleysi bæjaryfirvalda um að grípa til viðeigandi aðgerða. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands sagði fyrr í vikunni að æskilegt væri að færanlegir mælar gætu mælt mengunina nær upptökum útblástursins.
Greina mátti ákveðið samskiptaleysi milli bæjarins og heilbrigðiseftirlitsins hjá talsmanni þess.
Bæjarstjóri segir að þetta málefni hafi ekki fengið þannig umræðu í bæjarkerfinu að hægt væri að segja að áhugaleysi ríkti um málið. Hún kveðst mjög ósátt við núverandi stöðu og að bærinn muni koma þeim athugasemdum sínum á framfæri við Hafnarsamlag Norðurlands, sem fer með málið.