Besti tími ársins eða versti tími ársins

Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar. mbl.is/Sigurður Bogi

Otti Rafn Sigmarsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir sjálfboðaliða þreytast fljótt, komi til langvarandi eldgoss. Þeir þurfi líka eins og annað fólk að sinna daglegri vinnu sinni og fjölskyldu.

Í samtali við mbl.is kallar hann eftir fljótu viðbragði hins opinbera komi til eldsumbrota.

Sjálfboðaliðar verða fljótt þreyttir

Otti segir að hefjist eldgos megi búast við að 10-12 þúsund manns leggi leið sína á gosstöðvarnar fyrstu dagana. „Það má deila um það hvort þetta er besti tími ársins eða versti tími ársins. Núna er þokkalega gott veður og mikið af ferðamönnum. Það þýðir líka að margt okkar fólk sem er útivistarfólk og fjölskyldufólk er í sumarfríi og á ferðalögum.“

Hann rifjar það upp að sjúkraflutningafólk og landverðir hafi bæst í hópinn nokkrum vikum eftir að fyrri tvö eldgosin hófust.

„Við höfum kallað eftir svona atvinnuliði. Sjálfboðaliðar verða fljótt þreyttir á því að taka sér frí frá vinnu eða að nota hluta af sumarfríinu sínu til að sinna verkefnum.“

Landsbjörg hefur verið að skoða ólíkar sviðsmyndir komi til goss. Meðal annars er verið að skoða vegi á svæðinu og hvernig hægt verði að stjórna aðgengi eftir ólíkum stöðum.

Hið opinbera þungt í vöfum

Otti telur aðgangsstýringu vera öryggismál. Hann rifjar það upp að um leið og leiðir voru stikaðar og göngustígar útbúnir í fyrri gosum, hafi verkefnum við að leita að týndu fólki fækkað. Þá hafi slysum fækkað og verkefnum í því að koma hröktu fólki til byggða.

Otti segir sjálfboðaliða eftir sem áður vera tilbúna í öll verkefni og muni sinna þeim af fagmennsku.

„Þriðja gosið á þremur árum á sama stað reynir samt á þolgæði sjálfboðaliða. Sérstaklega á það við ef opinberir viðbragðsaðilar eru seinir að bregðast við. Það eru allir af vilja gerðir, en opinbera kerfið er ákaflega þungt í vöfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert