Fá upplýsingar um magn kviku á morgun

Veðurstofan fylgist nú grannt með stöðu mála og hefur keyrt …
Veðurstofan fylgist nú grannt með stöðu mála og hefur keyrt upp ýmis reiknilíkön sem geta gefið skýrari mynd af ástandinu. Morgunblaðið/Eyþór

Veðurstofan hefur keyrt upp ýmis reiknilíkön vegna skjálftahrinunnar á Reykjanesskaga sem má búast við niðurstöðum úr á morgun. Segja líkönin meðal annars til um magn kviku og mögulegar sviðsmyndir ef til eldgoss kemur. 

Skýrari mynd af ástandinu ætti því að liggja fyrir á næstu dögum að sögn náttúruvársérfræðings. „Næstu tveir sólarhringar eru mikilvægir. Þetta verður spennandi helgi,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is.

Dregið hefur úr skjálftavirkni í dag og gætu meiri líkur verið á eldgosi.

„Annað hvort nær kvikan upp á yfirborðið eða þá að það fer að draga enn frekar úr virkninni,“ segir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

5.000 skjálftar

Um 5.000 skjálftar hafa mælst á landsvæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis frá því að skjálftahrinan hófst, en nokkuð dró þó úr skjálftavirkninni í dag. 

Stærstu skjálftar sem riðu yfir í dag voru um eða rétt yfir 4 að stærð, samkvæmt mælingum Veðurstofunnar. Voru þeir fjórir. 

Landris bendir til mikillar kvikusöfnunnar

Þá er landris á svæðinu á milli Fagradalsfjalls og Keilis mikið og nemur upplyftingin hátt í 20 cm á teimur sólarhringum að sögn náttúruvársérfræðings. Bendir þetta til mikillar kvikusöfnunar undir jarðskorpunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert