Gæti runnið yfir Reykjanesbraut á nokkrum dögum

Undirbúningsvinna við byggingu varnargarða til þess að stjórna hraunflæðinu er …
Undirbúningsvinna við byggingu varnargarða til þess að stjórna hraunflæðinu er þegar hafin, að sögn Ármanns. Samsett mynd

Hraun rynni líklega í átt að Reykjanesbraut og jafnvel yfir hana ef eldgos hæfist á milli Keilis og Fagradalsfjalls, þar sem nú er talið líklegast að kvika leiti upp á yfirborðið. Þetta segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur hjá jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. 

Tæki líkega mánuði

Að sögn Ármanns tæki það hraunið að öllum líkindum nokkra mánuði að renna að Reykjanesbrautinni. „Það er ef gosið er svipað öflugt og gosin árið 2021 og 2022. Ef það er öflugara þá næði hraunið að Reykjanesbrautinni á örfáum dögum," bætir hann við

Færi hraunið líklega yfir Reykjanesbrautina í kringum Kúagerði, að sögn Ármanns.

Hann segir útreikninginn byggja á afli eldgossins, sem erfitt sé að segja til um fyrirfram. Allt kæmi þetta í ljós um leið og gosið hæfist.

Undirbúningur við byggingu varnargarða hafin

Undirbúningsvinna við byggingu varnargarða til þess að stjórna hraunflæðinu er þegar hafin, að sögn Ármanns.

„Núna verðum við bara að bíða og um leið og sprungan opnast og það fer að gjósa þá erum við tiltölulega fljót að átta okkur á því hvað tekur við og munum bregðast við í samræmi við það.

Víðfeðmara landris bendir til meiri kvikusöfnunar

Landris mælist meira nú heldur en í aðdraganda fyrri eldgosanna tveggja í kringum Fagradalsfjall. „Við sjáum, með landmælingum, ris um allt Reykjanes og er talað um víðfeðmara landris en áður. Það þýðir að meiri kvika er farin að safnast undir skorpunni og þá auðvitað eykst óvissuástandið.“

Hvað ef kvikan leitar upp á yfirborðið annars staðar?

„Ef það gýs í Eldvörpum skapast hætta í kringum Bláa lónið og Svartsengi. Svo ef það gýs lengra úti á Reykjanestánni þá eru virkjanirnar þar í mikilli hættu. Eins ef kvikan kemur upp í Móháldsalnum eða Brennisteinsfjöllunum, þá eru útverfi Hafnafjarðar komin í erfiða stöðu,“ segir Ármann. „Þá er eins gott að vera vel undirbúinn."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert