Vesturbæingar hafa rætt sín á milli um fyrirhugaða fjölgun gjaldskyldra stæða í hverfinu og eins um það að nú verði rukkað lengur og fleiri daga.
Líflegar umræður hafa verið í hópnum Vesturbærinn á Facebook, þar sem tveir íbúar Vesturbæjarins, þau Teitur Atlason og Sigríður Ásthildur Andersen hafa tjáð sig.
mbl.is náði tali af þeim báðum til þess að heyra betur sjónarhorn þeirra. Teitur bendir á að eftir að gjaldskyldu var komið á hluta Ásvallagötu séu bílastæðavandamál þar úr sögunni. Áður hafi það til dæmis verið alger höfuðverkur að flytja, flutningabíllinn hafi stöðvað umferð í báðar áttir, en nú sé það vandamál úr sögunni.
Teitur tók eftir því síðasta vetur þegar sumir bílar lokuðust inni eftir snjómokstur að þá sátu þeir eftir óhreyfðir þar sem eftir lifði vetrar. Það fékk hann til að álykta að þeir bílar væru í lítilli notkun og væru frekar í langtímageymslu.
Hann telur bílastæði í íbúðagötu eigi einkum að nýtast íbúunum. Það sé því líka þeirra hagur að gjaldskyldan standi fram á kvöld, því að þeir sem eigi íbúakort muni þá eiga auðveldar með að fá stæði heima hjá sér þegar þeir snúa heim frá vinnu.
Teitur er þó ekki hrifinn af útfærslu Reykjavíkurborgar, telur hana á tíðum of einstrengingslega. Nefnir hann dæmi um íbúa sem ekki munu geta sótt um íbúakort. Meta þurfi hvert tilvik fyrir sig. „Stjórnsýsla Reykjavíkur má ekki vera svona einstrengingsleg, það er uppskrift að einhverju leiðinlegu.“
Hann telur að gjaldskylda á einum stað getur ýtt vandanum áfram, fólk leggi bara annars staðar. Hann vill því gjarnan sjá víkkun gjaldsvæðis, t.d. inn á fjölbýlar götur eins og Holtsgötu og Vesturvallagötu, sem illa þola ágang annarra en íbúanna sjálfra.
Sigríður Andersen, íbúi í Vesturbæ og lögmaður, segir það vekja athygli að borgarráð sé að taka ákvörðun um svona nokkuð um mitt sumar. Þetta sé mál sem alla jafnan hefði átt að fá umfjöllun í borgarstjórn.
Hún samþykkir það að ákveðin sjónarmið geti gilt um gjaldskyldu til að stjórna umferð miðsvæðis í kringum verslun og þjónustu. Bílastæðagjald sé þá að koma í veg fyrir að annað starfsfólk miðbæjarins sé að taka öll stæði og hefta aðgang annarra að þjónustunni og hindri þannig eðlilegt flæði.
Stækkun gjaldsvæðis hafi verið tekin algerlega án íhugunar um hvort önnur sjónarmið geti átt við í íbúðahverfum. Því síður sér hún rök fyrir því að slík gjaldskylda eigi við í íbúðahverfum langt fram á kvöld og á sunnudögum.
Hún telur enga lausn felast í því að gjaldskyldar götur standi nú meira og minna auðar allan daginn. Slíkt sé einfaldlega léleg nýting á borgarlandi. Mun betra sé að aðrir geti nýtt sér göturnar þegar íbúarnir eru fjarverandi.
Það geti líka þjónað öryggissjónarmiði að í götunum sé líf á daginn, frekar en að þær standi auðar. Sigríður segist hafa talið að umkvörtunarefnið hafi frekar verið að fólk keyri of mikið og samkvæmt því ætti bílum að vera hreyft oft á dag.
„Það verður líka að gæta jafnræðis í svona ákvörðunum. Hér eru undir einungis þeir íbúar sem eiga heima nálægt miðbænum. Þetta eru hreinar íbúðagötur, og enga þjónustu þangað að sækja. Hvers vegna eiga íbúar þeirra hverfa að sæta einhverri sérstakri gjaldtöku umfram íbúa annarra hverfa.
Borga þarf fyrir íbúakort, sem er óréttlát gjaldtaka Reykjavíkurborgar á íbúa tiltekinna hverfa. Hér er hvorki gætt að meðalhófi né jafnræði íbúa. Það hefur verið búið til vandamál með þéttingu byggðarinnar og fækkun stæða. Og nú kemur sökudólgurinn og ætlar að leysa það með skattlagningu,“ segir Sigríður.