Hefur orkuþörfin verið vanmetin?

Efla þarf rannsóknir á þekktum jarðhitavinnslusvæðum og utan þeirra, segir …
Efla þarf rannsóknir á þekktum jarðhitavinnslusvæðum og utan þeirra, segir forstjóri ÍSOR. mbl.is/RAX

Umtalsverðrar bjartsýni hefur gætt í öllu mati á jarðhitakostum hér á landi í gegnum tíðina að því er fram kemur í samtölum Morgunblaðsins við fólk í orkugeiranum.

Vísað er til þess að mælingar á virkjanasvæðum sýni ákveðnar tölur en erfitt sé að meta svæðin fyrr en byrjað er að reka þau.

Þannig séu dæmi um að virkjanir skili mun minni orku en gert var ráð fyrir í rammaáætlun og jafnvel enn minni en uppgefin hámarksafköst gera ráð fyrir.

Af þeim sökum hafi orkufyrirtæki borað víðar en upphaflega var áætlað til að halda framleiðslugetunni og leita í ný svæði til þess að halda núverandi virkjunum uppi, svæði sem upphaflega voru kannski hugsuð fyrir nýjar virkjanir.

Fyrir vikið telja margir viðmælendur blaðsins að geta Íslendinga til orkuframleiðslu hafi ef til vill verið ofmetin og því kunni framtíðarorkuþörf að hafa verið vanmetin. Er þar meðal annars vísað til aukinnar orkuþarfar vegna orkuskipta, fólksfjölgunar og síaukins ferðamannafjölda hérlendis.

Efla þarf rannsóknir

Árni Magnússon, forstjóri Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR), segir að frá upphafi hafi verið vitað að fylgjast yrði vel með stöðu mála og þróa svæðin eftir að farið væri að vinna á þeim.

Það hafi að hluta verið gert en gera þurfi betur í þeim efnum. Hann leggur áherslu á að tímabært sé að kortleggja stöðuna.

„Á tímum vaxandi orkuþarfar, meðal annars með tilliti til orkuskipta og fólksfjölgunar, þá er mjög mikilvægt að við eflum rannsóknir. Það á bæði við um þekkt jarðhitavinnslusvæði og utan þeirra. Þannig höfum við einhverja hugmynd um það hver auðlindin er og hvað við getum unnið úr henni,“ segir Árni

Umfjöllunina má sjá í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag, en þar er einnig rætt við Breka Logason, samskiptastjóra Orkuveitu Reykjavíkur og Björn Arnar Hauksson, sérfræðing hjá Orkustofnun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert