Þeir Jorge, Rosas, Juan Carlos og Luis Garrido lögðu allir leið sína upp Stóra-Hrút á Reykjanesskaganum í dag til að berja gosstöðvarnar við Fagradalsfjall og Meradali augum. Þeir héldu jafnframt í ferðina í þeirri von að eldgos myndi hefjast á svæðinu sem hefði að þeirra sögn verið draumi líkast en þeir eru allir jarðfræðingar frá Mexíkó.
Blaðamaður mbl.is hitti kappana fjóra á Stóra-Hrút og tók þá tali en þeir hafa verið nánir vinir í 44 ár eftir að þeir kynntust í menntaskóla. Þeir ákváðu allir að leggja jarðfræði fyrir sig þar sem þeir hafa um alla tíð verið hugfangnir af náttúrunni.
Jarðvísindamenn telja vaxandi líkur á að eldgos hefjist á Reykjanesskaga eftir að jarðskjálftahrina hófst við Fagradalsfjall á þriðjudaginn. Reiknað er með að kvika komi upp á milli Fagradalsfjalls og Keilis, ef af því verður.
Að sögn sonar Luis Garrido sem var einnig með í ferðinni fara þeir vinirnir í ferð á hverju ári til mismunandi landa. Byggir valið á jarðfræðilegu sjónarmiði og varð Ísland fyrir valinu í ár. Þeir hafa verið á Íslandi í sex daga og farið víða á þeim tíma.
Jorge segir í samtali við mbl.is að þeir gætu ekki verið ánægðari með tímasetninguna á ferð sinni og að þeir vonist innilega til þess að eldgos hefjist áður en þeir halda heim aftur eftir fjóra daga.
„Við komum fyrst og fremst til að sjá eldfjallið og allt hraunið í kring. Það er fullkomið að allt byrji að skjálfa um leið og við komum. Það yrði draumur fyrir okkur ef það myndi byrja gjósa,“ segir Jorge.
Spurðir hvort að þeir hafi áhyggjur af því að það byrji að gjósa á meðan þeir eru á svæðinu svara þeir neitandi og segja það þvert á móti. Þeir taka jafnframt fram að þeir hafi áður séð eldgos í Mexíkó.
Spurðir hvað þeim líki mest við í fari Íslands sögðust þeir vera sammála um að það væri landslagið með vísun til jarðfræðinnar, Þingvellir og lambakjöt. Luis Garrido sagðist þó ekki vera jafn hrifinn af lambakjötinu og tók fram að honum þyki fiskur og franskar betri matur.
Þeir sögðu Ísland vera eitt fallegasta land sem þeir höfðu komið til og sögðust hissa hve fáir íbúar væru á landinu. „Það er mikið landsvæði þar sem enginn er. Þetta er mjög ólíkt Mexíkó það er mjög þröngt á þingi þar. Byggð alls staðar,“ segir Jorge.