Meiri líkur en minni á eldgosi

Skammt frá skjálftasvæðinu á Reykjanesskaga.
Skammt frá skjálftasvæðinu á Reykjanesskaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Kvikan er komin nálægt yfirborðinu. Svo lengi sem skjálftavirknin heldur striki, er talið líklegt að kvika geti brotið sér leið upp á yfirborð og hafið eldgos,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni.

„Eins og er teljum við líklegt, að ef gos hefjist, verði það á svæðinu milli Litla-Hrúts og Keilis,“ bætir hann við.

Skjálftavirknin heldur sig á sama svæði

Bjarki segir skjálftavirknina enn halda sig á sama svæði.

„Það mælast alveg skjálftar utan við umrætt svæði, á milli gamla gígsins og Keilis, sem gætu gefið fólki þá hugmynd að einhverjar hreyfingar væru á þessu, en samkvæmt okkar gögnum eru skjálftarnir enn bara að malla á þessu sama svæði.“

Mesta virknin er nú talin vera við Litla-Hrút, sem er á milli Keilis og gamla gígsins við Fagradalsfjall.

Rólegra eftir miðnætti 

Bjarki bendir á að skjálftavirkni hafi farið minnkandi eftir miðnætti í nótt.

„Það hefur verið rólegra eftir miðnætti. Í dag hafa mælst færri skjálftar en í gær, og þeir eru almennt minni. Við höfum mælt 1.200-1.300 skjálfta frá miðnætti, sem er minna en í gær.“

Slík skjálftavirkni þykir samt sem áður mjög mikil.

„Ástandið í heild sinni er í rauninni alls ekki rólegt.“

Hann tekur fram að alltaf séu líkur á því að jarðskjálftavirkni hætti og að ekkert gos verði. 

„Eins og er, teljum við þó meiri líkur vera á því að það gjósi en ella. Kvikan er komin nálægt yfirborðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert