Skjálftahrinan sem hófst á Reykjanesskaga á þriðjudag er talin vera vegna nýs kvikuinnskots á milli Fagradalsfjalls og Keilis.
Frá því hrinan hófst hafa um 4 þúsund skjálftar mælst á svæðinu milli fjallanna tveggja.
Stærsti skjálftinn varð í gærmorgun klukkan 8.21 og mældist hann 4,8 að stærð.
Alls hafa 13 skjálftar yfir fjórum að stærð mælst og tugi yfir þremur að stærð. Skjálftarnir finnast víða, allt frá austur að Hellu og norður á Snæfellsnes.
Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni í dag að því er kemur fram í athugasemdum jarðvísindamanns á Veðurstofu Íslands.