Staða kvenna í fangelsi lakari en karla

Ekki hefur verið mótuð heildræn stefna um vistun kvenfanga
Ekki hefur verið mótuð heildræn stefna um vistun kvenfanga mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirkomulag við afplánun kvenna á Íslandi er almennt til þess fallið að gera stöðu þeirra lakari samanborið við karlfanga.

Þetta kemur fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis um aðbúnað og aðstæður kvenna í fangelsum á Íslandi.

Þar segir að ástæðurnar megi að verulegu leyti rekja til færri vistunarúrræða og þess að konur kunni að vera vistaðar í fangelsinu Hólmsheiði um lengra skeið þar sem fangelsin að Litla-Hrauni og Kvíabryggju séu einungis ætluð körlum.

Staða kvenna birtist þó einnig í því að ekki hefur verið mótuð heildræn stefna um vistun kvenfanga, að því er segir á vef umboðsmanns Alþingis um skýrsluna.

Skortur á virknistarfi og þjónustu

Fangelsið Hólmsheiði er aðal vistunarstaður kvenfanga. Er það fyrst og fremst hugsað sem móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi.

Kvenfangar vistast þannig mest megnis í lokuðu fangelsi þar sem öryggisstig er hátt.

Í skýrslu umboðsmanns kemur fram að innan fangelsisins sé skortur á virknistarfi og þjónustu. Minna framboð sé af vinnu fyrir kvennfanga en karlfanga og atvinnutækifæri fyrir konur séu að mestu bundin við hefðbundin kvennastörf eins og þrif og við handverk. 

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði.

Mest þrjár konur miðað við 18 karla

Segir umboðsmaður Alþingis að eina opna fangelsið sem standi konum til boða sé fangelsið Sogni. Þar vistist karlar og konur saman en kvenfangar séu þar í miklum minnihluta. Mest séu þrjár konur miðað við 18 karlfanga á hverjum tíma.

„Möguleikar kvenna til að afplána í opnu fangelsi eru þannig lakari en karla í sömu stöðu án þess að sá munur verði útskýrður með öðru en skorti á viðeigandi úrræðum,“ segir í skýrslu umboðsmanns Alþingis.

Einnig segir að stór hluti kvenfanga glími við alvarlegan vímuefnavanda og að félagsleg staða þeirra sé almennt lakari en karlfanga. Konur fái engu að síður hvað minnstu aðstoð innan refsivörslukerfisins við að ná tökum á vanda sínum.

Meirihluti af erlendum uppruna

Stór meirihluti kvenfanga í fangelsinu á Hólmsheiði eru af erlendum uppruna. Í ljós hefur komið af viðtölum á vegum umboðsmanns Alþingis við fangana að þær reiði sig að miklu leyti á samfanga fyrir upplýsingar.

Í skýrslunni er bent á að það geti reynst óheppilegt og því beint að fangelsinu og Fangelsismálastofnun að bæta upplýsingagjöf til erlendra fanga.

Tekið er fram á vefsíðu umboðsmanns að ábendingum um það sem megi betur fara sé beint til viðeigandi ráðuneyta og stofnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka