Telur að ferðaþjónustan myndi standa undir eldgosi

Jóhannes Þór Skúlason, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar.
Jóhannes Þór Skúlason, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

„Ég tel að ferðaþjónustan standi alveg undir eldgosi. Eldgos á þessum tímapunkti myndi líklegast bara hafa samskonar áhrif og áður. Gosið myndi vekja athygli, og yrði á stað sem gæti hæglega orðið fjölfær ferðamannastaður, sem einnig vill svo til að er á almannavarnasvæði,“ segir Jó­hann­es Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar

Framkvæmdastjórinn segist trúa því að viðbrögð við eldgosi myndu ganga vel, og að hægt væri að tryggja öryggi fólks og gott aðgengi að öruggum stöðum.

„Ég held að okkar öryggisstofnanir, sem og aðrir aðilar eins og Ferðamálastofa hafi í fyrri gosum sýnt að það sé hægt að gera þetta vel. Við lærum líka meira í hvert skipti sem gýs þarna,“ bætir Jóhannes við.

Öryggi fólks skiptir mestu

Jóhannes telur ekki eina tímasetningu, vera hentugri en aðra þegar kemur að eldgosum. Mestu máli skiptir að tryggja öryggi fólks.

„Ég tel okkur vera að gera það, og eins lengi og við höldum því áfram myndi ég halda að þessi tími væri alveg jafn hentugur og hver annar. Aðalatriðið er bara að öryggi fólks sé tryggt,“ segir Jóhannes.

Skortur á gistiplássi er ólíklegur

Þessa stundina er mikill fjöldi ferðamanna Íslandi, og ef það skyldi gjósa, myndi ferðamönnum væntanlega fjölga enn meir.

„Gistipláss eru ekki af skornum skammti, vissulega gæti það reynst áskorun ef að fólk ætlar sér að koma í stórum hópum og ferðast um landið. Það er kannski erfitt að fá gistingu með skömmum fyrirvara fyrir stóra hópa af fólki, en það er vel hægt að finna gistingu þó svo að fólk þyrfti kannski að hafa meira fyrir því heldur en venjulega,“ segir Jóhannes

Eldgos gæti fangað athygli samgönguflotans

Jóhannes telur að síðasta gos hafi haft áhrif á áherslur samgönguflotans.

„Við sáum í fyrra hvernig að fyrirtæki og leiðsögumenn þurftu að flytja til bæði tæki og mannskap til að anna eftirspurn við gosstöðvarnar.

Þessar breytingar leiddu til þess að framboð á ferðum til annarra ferðamannastaða fækkaði, og það er ekkert ólíklegt að slíkt gæti endurtekið sig. Við erum náttúrulega ekki með endalausan fjölda af bílstjórum, leiðsögumönnum og tækjum,“ bætir Jóhannes við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert