Tvær sviðsmyndir líklegastar

Skjálftarnir hafa flestir orðið rétt norðan við Litla-Hrút.
Skjálftarnir hafa flestir orðið rétt norðan við Litla-Hrút. Kort/mbl.is

Miðað við mat sérfræðinga á Veðurstofu Íslands á skjálftavirkni á Reykjanesskaga eru tvær sviðsmyndir líklegastar.

Annars vegar gæti jarðskjálftavirknin minnkað jafnt og þétt án þess að kvika berist upp á yfirborðið. Hins vegar gæti kvikan haldið áfram í átt að yfirborðinu sem myndi leiða til eldgoss þar sem skjálftahrinan er nú. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar

Ekki er hægt að útiloka að kvika berist upp á yfirborðið hvar sem er á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis. 

Af þessu tvennu virðist líklegra að eldgos verði innan daga eða vikna. 

1.300 skjálftar frá miðnætti

Alls hafa 4.700 skjálftar mælst frá upphafi hrinunnar sem hófst 4. júlí. Þar af hafa 1.300 skjálftar orðið frá miðnætti í dag 6. júlí. 

Frá miðnætti hafa sex skjálftar mælst yfir 3,5 að stærð og hafa þeir kröftugustu fundist vel á suðvesturhorninu. Á heildina litið hefur ákefð hrinunnar minnkað lítillega, bæði hvað fjölda og stærð varðar.

Horft í átt að Keili og Litla-Hrút af Núpshlíðarhálsi.
Horft í átt að Keili og Litla-Hrút af Núpshlíðarhálsi. mbl.is/Skúli Halldórsson

Norðan við Litla-Hrút

Staðsetning jarðskjálftanna dreifist á norðaustur-suðvesturlínu milli Fagradalsfjalls og Keilis, að mestu rétt norðan við fjallið Litla-Hrút. Nýjustu jarðskorpumælingar sýna verulegar hreyfingar sem benda til kvikuhreyfinga á svæðinu þar sem jarðskjálftarnir mælast.

Líkleg skýring er kvikuinnskot í norðaustur-suðvesturátt á 2 til 4 km dýpi. Innskotið er nógu nálægt yfirborði til að eldgos geti orðið án frekari stigmögnunar í skjálftavirkni eða aflögunarmælingum.

Geta valdið grjóthruni

Meðan á jarðskjálftahrinunni stendur er mesta hættan vegna jarðskjálftavirkni og þeim yfirborðshreyfingum sem stærri skjálftar í hrinunni valda fjarri meginvirkninni, ásamt gikkskjálftum á öðrum sprungum á Reykjanesskaga.

Stærstu skjálftarnir geta valdið staðbundnu grjóthruni og því er fólki ráðlagt að ganga ekki nálægt klettabjörgum eða bröttum hlíðum á svæðinu í kringum Keili, Fagradalsfjall og Kleifarvatn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka