Bara venjulegur dagur á skrifstofunni

Steinar Þór Kristinsson, stjóri svæðisstjórnar og félagi hjá björgunarsveitinni Þorbirni …
Steinar Þór Kristinsson, stjóri svæðisstjórnar og félagi hjá björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík. mbl.is/Eyþór Árnason

„Þetta náttúrulega þýðir bara meira vesen, meira áreiti og meiri vinna. Við höfum fengið þokkalegan skammt af þessu síðustu ár, svo við værum alveg til í að sleppa þessu.

Þetta segir Steinar Þór Kristinsson, stjóri svæðisstjórnar og félagi hjá björgunarsveitinni Þorbirni, í samtali við mbl.is um jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaganum sem bendir til að mögulega muni hefjast eldgos á svæðinu fljótlega.

Björgunarsveitin Þorbjörn er staðsett í Grindavík og hefur því þurft að bera meginþungann af björgunaraðgerðum og viðbragðsstörfum í kringum eldgosin tvö við Fagradalsfjall og Meradali.

Verkefni sem þau þekkja

„Þetta er nú svona bara eins og venjulegur dagur á skrifstofunni. Þetta er eitt af þessum verkefnum og verkefni sem við þekkjum,“ segir Steinar kíminn spurður hvernig mögulegt eldgos leggist í mannskapinn hjá björgunarsveitinni. 

„Frá degi eitt hafa aðrar björgunarsveitir komið að þessu og sem betur fer höfum við ekki staðið einir í þessu. Þó að við myndum vilja sleppa þessu þá stöndum við vaktina og tökum verkefninu þegar það kemur,“ heldur hann áfram. 

Ekkert Covid að hjálpa núna

Spurður hvort að þetta sé ákjósanlegur árstími fyrir eldgos með tilliti til væntanlegra verkefna björgunarsveitarinnar á svæðinu svarar Steinar því neitandi.

„Menn eru náttúrulega út um allt í fríum svo það eru færri viðbúnir hérna á stöðinni. Síðan eru fleiri erlendir ferðamenn. Ég hef ákveðnar áhyggjur af öllum ferðamönnunum á svæðinu. Það er ekkert Covid að hjálpa okkur núna.“

Hann segir að mögulega verði aldrei fleiri en núna sem munu sækja væntanlegar gosstöðvar ef svo fer að það gjósi. Hann minnist þess hvernig mikill fjöldi ferðamanna hefur sótt svæðið í vetur og í sumar bæði í slæmu veðri og góðu þótt að ekkert eldgos hafi verið sjáanlegt.

„Það hefur verið ótrúlegur fjöldi sem er að koma þarna. Í leiðinda veðri jafnvel hátt upp í tuttugu bílar á bílastæðinu.“

Steinar Þór Kristinsson, björgunarsveitarmaður í Þorbirni í Grindavík, inní aðgerðarstjórnunar …
Steinar Þór Kristinsson, björgunarsveitarmaður í Þorbirni í Grindavík, inní aðgerðarstjórnunar herbergi sveitarinnar. mbl.is/Eyþór Árnason

Snúa við fólki sem er ofurölvi á svæðinu

Hann segir að störf björgunarsveita á svæðinu séu orðin mun viðráðanlegri núna en þau voru til að byrja með í fyrsta eldgosinu á svæðinu. Hann vísar þá til gönguleiðanna sem er búið að mynda og leiða björgunarsveita um svæðið.

„Við höfum lært ýmislegt. Lært mikið á mannlega hegðun. Það er ekkert sem við höfum ekki séð. Við höfum lent í því að snúa fólki sem er ofurölvi og rétt nýlagt af stað og fólki sem er með ungabörn með sér að vetri til. Bara allt.“

Illfært og hættulegt hraun

Ef eldgos kemur upp er reiknað með því að kvika komi líklegast upp á milli Fagradalsfjalls og Keilis. Virðast gosstöðvarnar fjarlægjast Grindavík með hverju gosinu sem verður. Spurður hvort að staðsetning mögulegs eldgoss sé ákjósanleg fyrir björgunarsveitina segir hann það ekki endilega vera svo.

„Ef maður horfir á innviðina þá er það jákvætt. Það neikvæða við þetta er að þetta er orðið lengra ferðalag og það er enginn bílvegur að þessu. Það eru meiri líkur á að fólk lendi í vandræðum. Kaflinn frá Litla-Hrút og að Keili, þar er bara mjög illfært hraun. Ef fólk fer að brölta þar og detta þá er bara ógjörningur að bera menn í þessu hrauni.“

Hann segir það geta verið mjög hættulegt fyrir fólk að missa fæturna og falla á svæðinu þar sem hraunið er mjög hvasst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert