Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar barst beiðni um aðstoð frá 20 til 30 manna hóps hestafólks í dag. Hópurinn var á leið sinni frá Landmannahelli og inn í Landmannalaugar þegar kona féll af baki en óttast var að hún hefði hlotið áverka á hrygginn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélagi Landsbjargar.
Konan hafði fallið við Frostastaðavatn en björgunarfólk hélt strax í átt að vettvangi. Þegar þangað var komið var ákveðið að kalla eftir þyrlu frá Landhelgisgæslunni til að flytja konuna á sjúkrahús.
Aðstæður á vettvangi voru ekki góðar til að lenda þyrlu og var konan því flutt skamma vegferð með bifreið björgunarsveitarinnar.
„Í dag varð einnig annað samskonar óhapp þar sem önnur kona féll af hestbaki á svipuðum slóðum og var flutt í bíl björgunarsveitar til móts við sjúkrabíl, en hún fékk höfuðáverka við fallið,“ segir í tilkynningunni.
Hálendisvaktin er nú á leið sinni að Illagili að Fjallabaki þar sem rúta situr föst í á. Um tuttugu farþegar eru um borð í rútunni.