Hálendisvaktin kölluð út er tveir féllu af baki

Björgunarfólk flytur konuna inn í þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Björgunarfólk flytur konuna inn í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Aðsend

Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar barst beiðni um aðstoð frá 20 til 30 manna hóps hestafólks í dag. Hópurinn var á leið sinni frá Landmannahelli og inn í Landmannalaugar þegar kona féll af baki en óttast var að hún hefði hlotið áverka á hrygginn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélagi Landsbjargar.

Kölluðu til þyrlu Landhelgisgæslunnar

Konan hafði fallið við Frostastaðavatn en björgunarfólk hélt strax í átt að vettvangi. Þegar þangað var komið var ákveðið að kalla eftir þyrlu frá Landhelgisgæslunni til að flytja konuna á sjúkrahús. 

Aðstæður á vettvangi voru ekki góðar til að lenda þyrlu og var konan því flutt skamma vegferð með bifreið björgunarsveitarinnar. 

Í dag varð einnig annað samskonar óhapp þar sem önnur kona féll af hestbaki á svipuðum slóðum og var flutt í bíl björgunarsveitar til móts við sjúkrabíl, en hún fékk höfuðáverka við fallið,“ segir í tilkynningunni. 

Hálendisvaktin er nú á leið sinni að Illagili að Fjallabaki þar sem rúta situr föst í á. Um tuttugu farþegar eru um borð í rútunni.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert