Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar kom farþegum rútu til bjargar en rútan festist í vaði ár að Fjallabaki við Illagil í kvöld. Um tuttugu farþegar voru í rútunni en enginn þeirra slasaðist.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
„Bilun virðist hafa orðið í rútunni, sem gerði það að verkum að ekki var hægt að koma henni í gang í ánni,“ segir í tilkynningunni.
Ekki gekk að draga rútuna vélarvana upp úr ánni og voru því farþegarnir fluttir inn í Landmannalaugar um borð í björgunarsveitarbílum, bifreið landvarða og einkabifreið.
„Önnur rúta frá rútufyrirtækinu er á leið í Landmannalaugar til að flytja hópinn áfram á áfangastað sinn í kvöld, Kirkjubæjarklaustur.“