Snarpur skjálfti fannst klukkan 17.57 á suðvesturhorni landsins.
Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofu Íslands var skjálftinn 4,5 að stærð og átti upptök sín rétt vestan við Kleifarvatn. Samkvæmt bráðabirgðatölum Veðurstofu Íslands mældist hann á 1,1 kílómetra dýpi.
„Tilkynningar hafa borist víðsvegar frá suðvesturhorninu um að hann hafi fundist. Skjálftinn er talinn vera svokallaður gikkskjálfti, sem verður vegna spennubreytinga á svæðinu,“ segir í tilkynningunni.
Fólk hefur lýst því yfir í samtali við mbl.is að skjálftinn hafi fundist á Hvolsvelli og Hellu.
Veðurstofan biðlar jafnframt til fólks að hafa varann á þar sem að grjóthrun getur orðið í kjölfar skjálfta sem þessa. „Íbúar í grennd við svæðið eru hvattir til að huga að lausa- og innanstokksmunum.“