„Mjög góð í að vera innflytjandi!“

Michelle Bird er bandarísk listakona sem búið hefur á Íslandi …
Michelle Bird er bandarísk listakona sem búið hefur á Íslandi í áratug. Hér hefur hún haldið sýningar, kennt og haldið námskeið. mbl.is/Ásdís

Í Borgarnesi býr hin litríka og glaðlynda Michelle Bird, listakona, kennari og heimsborgari. Michelle er fædd í San Francisco en hefur búið á Hawaii og á meginlandi Evrópu áður en hún fann sér stað á eyjunni norður í hafi þar sem hún sinnir myndlist af fullum krafti.

Michelle bauð blaðamanni inn í hús sitt sem stendur hátt uppi á kletti og útsýnið eftir því. Úr stofunni blasir Hafnarfjallið við, en við horfum á það í gegnum hávaðarok og rigningarsudda. Michelle nær í kaffi og við spjöllum í mystíkinni sem myndast þegar mannverur sitja inni á meðan úti leika náttúruöflin, í þessu tilviki veðrið, listir sínar.

Af hverju ertu hér?

„Já, af hverju er ég hér? Vilja ekki allir vera hér?“ segir hún og hlær.

Blaðamaður horfir út í storminn og nefnir í háði að kannski sé það veðrið sem heillar.

„Veðrið, er að grínast? Ég elska veðrið hérna! Svona veður hentar svo vel fólki eins og mér því það er svo villt og stormasamt. Sem villt og stormasöm manneskja er gott að veðrið sé þannig því þá getur veðrið tekið það frá mér og ég finn þá kyrrðina innra með mér,“ segir Michelle.

Húkkað með málningarfötur

Listferill Michelle gekk mjög vel í Evrópu.

„Ég var mjög lánsöm og seldi mikið í Sviss. Ég var fljótt uppgötvuð af sýningarstjóra sem seldi mörg af mínum verkum til fyrirtækja,“ segir hún og segist vel hafa getað lifað af listinni þar í landi.

Michelle ákvað að flytja hingað árið 2013.

„Ég pakkaði öllu saman og setti í gám og lét flytja hann til Reykjavíkur. Ég leitaði að húsnæði sem gæti hýst stóru verkin mín, en sum eru mjög stór,“ segir hún og segist hafa byrjað í miðbænum með útsýni yfir borgina.

„Ég fann svo fljótlega að ég vildi búa fyrir utan höfuðborgina. Það varð harmleikur í fjölskyldunni sem hafði svo mikil áhrif á mig að ég fann mig knúna til að endurskoða allt í lífi mínu og það var ein ástæða fyrir því að flutti út á land,“ segir hún.

Michelle vinnur að stóru verki þar sem hafið og fantasían …
Michelle vinnur að stóru verki þar sem hafið og fantasían ræður ríkjum. mbl.is/Ásdís

„Þessi staður hér, þetta hús og þetta útsýni, varð fyrir valinu,“ segir hún og segist hafa viljað hús við sjóinn sem væri ekki lengra í burtu en tveggja tíma akstur frá Reykjavík.

„Ég átti engan bíl, enda ekki með bílpróf, og ég eyddi hverri krónu sem ég átti í þetta hús,“ segir hún og segist hafa ráðist í töluverðar endurbætur á húsinu og þá voru góð ráð dýr að komast til byggingavöruverslana og frá þeim með vörur.

„Ég gekk í Húsasmiðjuna og keypti málningu og dót og fór svo út og húkkaði far. Ég kallaði yfir búðina; er einhver að fara í Borgarnes? Ég fékk mjög skrítin viðbrögð, enda vorum við í Borgarnesi, en ég fékk alltaf far,“ segir hún og hlær dátt.

„Þannig kynntist ég mörgum hér, klyfjuð af málningarfötum.“

Kettlingar laða fólk að

Eftir komuna til Borgarness tók Michelle til hendinni í húsinu og gerði nánast allt sjálf en fékk fjölmargar heimsóknir frá vinum og fjölskyldu erlendis frá sem komu og hjálpuðu til.

„Sem betur fer hafði Ísland mikið aðdráttarafl og mörgum fannst tilvalið að koma, fá mat og gistingu hjá mér og hjálpa mér að mála þakið í leiðinni,“ segir hún og nefnir að nú sé húsið til sölu.

„Tveimur mánuðum eftir að ég flutti inn bankaði Guðrún, fyrrverandi forstöðumaður Safnahússins, upp á og bauð mér að halda sýningu. Ég ákvað að mála portrett af öllum sem komu inn á heimilið mitt. Mig langaði að gera eitthvað sem myndi tengjast Borgarnesi og þessi fyrsta sýning var í janúar 2015,“ segir hún og segir verkefnið hafa verið afar skemmtilegt.

„Ég málaði píparann og fólkið sem seldi mér húsið og fleira fólk og kynntist þá fólkinu í leiðinni. Og ég fékk mér kött sem eignaðist kettlinga. Besta leiðin til að laða að sér fólk og vera vinsæl er að eiga kettlinga!“ segir hún og segir alla krakka hverfisins hafa bankað upp á til að sjá kettlingana.

„Íslenskir krakkar eru mjög frjálslegir. Hér bankaði ein stúlka, ekki tíu ára gömul, og sagði: „Ég heyrði að þú værir listmálari, má ég koma inn og horfa á þig mála?“ Ég svaraði því neitandi og spurði hana hvort mamma hennar vissi hvar hún væri. Hún sagðist mega vera þar sem hún vildi og að mamma hennar þyrfti ekki að vita allt um sig,“ segir Michelle og hlær.

Michelle segir nú vinnustofuna of litla og hyggst flytja á …
Michelle segir nú vinnustofuna of litla og hyggst flytja á Suðurland bráðlega. mbl.is/Ásdís

„Ég byrjaði svo að vinna á frístundaheimili hér og vann að list með þrjátíu krökkum og í gegnum þá kynntist ég þrjátíu foreldrum,“ segir hún og segist innan skamms hafi hún eignast fjölda vina í Borgarnesi.

„Ég er mjög góð í að vera innflytjandi! Kannski er það í blóðinu.“ 

Ítarlegt viðtal er við Michelle í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert