Banaslys er flugvél fórst: Þrír látnir

Þrír létust er flugvél brotlenti á hálendinu fyrr í dag.
Þrír létust er flugvél brotlenti á hálendinu fyrr í dag. Ljósmynd/mbl.is

Þrír létust er flugvél fórst á hálendinu austanverðu fyrr í dag. Tveir farþegar voru um borð í flugvélinni ásamt flugmanni. Þeir voru úrskurðaðir látnir á vettvangi.

Eins og greint hefur verið frá hófst umfangsmikil leit að flugvélinni rétt fyrir klukkan 18 í dag eftir að boð barst úr neyðarsendi í flugvélinni. Hún fannst síðar klukkan 19.01 í kvöld við Sauðahnjúka milli Hornbrynju og Hraungarða en nú hefur verið staðfest að flugvélin brotlenti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.

Lögreglan á Austurlandi fer með rannsókn málsins og rannsóknarnefnd samgönguslysa í samræmi við lög þar um. Í tilkynningunni kemur fram að rannsókn málsins sé á frumstigi og að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu. 

Klukkan 17.01 í dag bárust stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð úr neyðarsendi lítillar flugvélar af gerðinni Cessna. Þegar var haft samband við flugstjórnarmiðstöðina sem staðfesti að vélin hefði verið á flugi yfir Austurlandi og að um borð væru auk flugmanns tveir farþegar,“ segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Þar kemur fram að ítrekað hafi verið gerð tilraun til að ná sambandi við flugvélina án árangurs.

„Um sjöleytið í kvöld fannst vélin brotlent við Sauðahnjúka. Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á vettvangi en flugmaður og farþegar Cessna-vélarinnar voru látnir þegar að var komið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert