Klasasprengjur ekki fluttar um íslenska lofthelgi

Utanríkisráðherra segir klasavopn verði ekki flutt um íslenska flughelgi.
Utanríkisráðherra segir klasavopn verði ekki flutt um íslenska flughelgi. mbl.is/Hákon Pálsson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is að íslensk lög heimili ekki flutning klasasprengja um íslenska lofthelgi.

Ekki sé heldur hægt að nota íslenska flugvelli í slíkum flutningum. Ísland er aðili að alþjóðlegum samningi um bann við klasasprengjum.

Ísland geti ekki stutt notkun slíkra vopna

Bandaríkjamenn hafa heitið Úkraínumönnum slíkum vopnum í baráttunni við Rússa. Margir leiðtoga ríkja Atlantshafsbandalagsins hafa síðan minnt á aðild sína að fyrrnefndum samning. Hvorki Bandaríkjamenn, Úkraínumenn né Rússar hafa undirritað samninginn.

Spurð um um þessar vopnasendingar segir utanríkisráðherra:

„Afstaða íslenskra stjórnvalda gegn notkun þessara vopna liggur fyrir. Ísland er aðili að samningnum um bann við notkun klasasprengja og getur því ekki stutt notkun þeirra. Það eru góðar og gildar ástæður fyrir því að flest ríki heims hafa sameinast um að banna þau þar sem þau valda gríðarlegri hættu fyrir almenna borgara.

Mikilvægt er að hafa í huga að allur hernaður Rússlands í Úkraínu er skýlaust brot á alþjóðalögum. Þar fellur vitaskuld einnig undir notkun þeirra á klasasprengjum og linnulausar árásir þeirra á borgaraleg skotmörk og innviði.

Úkraína er ekki aðili að samningnum gegn notkun slíkra vopna og má því færa rök fyrir því að ábyrg notkun þeirra, í samræmi við reglur mannúðarréttar, í varnartilgangi gegn innrás Rússlands feli ekki í sjálfri sér brot á alþjóðalögum. Bandaríkin eru heldur ekki aðili að samningnum.“

Á erfitt með að setja sig í dómarasæti

Þegar ráðherra er spurð nánar um afstöðu hennar til þessarar ákvörðunar Bandaríkjastjórnar segir hún:

„Best væri ef enginn stríðsaðili notaði þessi vopn, en það blasir við að Úkraína hefur ekki áhuga eða frumkvæði að notkun neins konar vopna innan sinna eigin landamæra.

Úkraínska þjóðin heyir varnarbaráttu gegn grimmilegri árás ríkis sem hyggst svipta hana frelsi og fullveldi. Persónulega á ég erfitt með að setja mig í dómarasæti yfir því til hvaða ráða úkraínsk stjórnvöld telja sig þurf að grípa í þessari neyð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert