Líkanreikningar sem byggðir eru á gögnum frá ICEYE SAR-gervihnettinum sýna að kvikan liggur enn grynnra en áður eða um 500 metrum undir yfirborði.
Þetta segir í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands.
„Útreikningarnir sýna að þann 8. júlí var gangurinn ekki að brjóta sér leið til norðaustur eða suðvesturs heldur er, eins og áður var búið að sjást, u.þ.b. 3 km langur og liggur á svæðinu á milli Litla Hrúts og Litla Keilis. Útreikningarnir gefa til kynna að enn streymi kvika í ganginn að neðan,“ segir í tilkynningunni.
Þá ítrekar Veðurstofan að miðað við nýjustu mælingar og niðurstöður bendi allt til þess að kvikan færist nær yfirborði með þeim afleiðingum að eldgos hefjist á næstu klukkutímum eða dögum.
Í dag eru fimm dagar frá upphafi skjálftahrinunnar á Reykjanesskaganum en í síðasta eldgosi í Meradölum hófst eldgos einmitt fimm dögum eftir að skjálftahrina á svæðinu hófst.
„Enn hægist á aflögun á svæðinu skv. GPS mælingum. Nýjustu gögn byggð á gervihnattamyndum frá ICEYE SAR dagana 7.-8. júlí sýna enn betur aflögun á svæðinu ofan kvikuinnskotsins. Sér í lagi sýna þær umtalsverða og nýja aflögun á yfirborði sem liggur í norðaustur-suðvestur stefnu rétt suðvestan Keilis.“