Leita flugvélar á Austurlandi

Landhelgisgæslan leitar nú að flugvél á Austurlandi.
Landhelgisgæslan leitar nú að flugvél á Austurlandi. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Rétt fyrir klukkan sex barst Landhelgisgæslunni boð frá neyðarsendi úr flugvél sem flaug yfir austanverðu hálendinu en flugvélin var hætt stödd. Leit stendur nú yfir. Leitinni er beint á svæði á Öxi á Austurlandi og þar vestur af.

„Það er að hefjast eftirgrennslan eftir flugvél þar sem merki komu frá neyðarsendi á hálendinu austanlands,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Samhæfingarstöð Almannavarna virkjuð

„Björgunarsveitir Austurlands hafa verið kallaðar úr og eftirgrennslan er að hefjast,“ segir Jón Þór sem telur að um sé að ræða litla fjögurra sæta vél. Samkvæmt tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg er um að ræða Cessna 172-flugvél.

Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð rétt fyrir klukkan 18 í kvöld, vegna leitar að lítilli flugvél á Austurlandi, þar sem Landhelgisgæsla stýrir aðgerðum,“ segir í tilkynningunni.

Nánast allar björgunarsveitir Austurlands hafa verið kallaðar út vegna þessa en þyrla frá Landhelgisgæslunni er á leið á svæðið ásamt ferðaþjónustuþyrlu frá Möðrudal. Umfangsmiklar björgunaraðgerðir viðbragsaðila standa nú yfir á svæðinu.

Ekki liggur fyrir að svo stöddu hve margir voru um borð.

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert