Ökumaður vélhjólsins sem lést á föstudaginn í slysinu við Laugarvatnsveg hét Jón Blær Jónsson Knudsen. Slysið varð upp úr klukkan 18.00 á föstudaginn en tildrög slyssins eru enn til rannsóknar hjá lögreglu.
Eiginkona Jóns, Gulla Ólafsdóttir, minntist eiginmanns síns í færslu á facebooksíðu sinni í gær. Hún gaf mbl.is góðfúslegt leyfi til að endurbirta færsluna og vísa í hana.
„Í gær áttum við hjónin góða stund í góðu veðri í góðra vina hópi sem endaði með eins hryllilegum hætti og hugsast getur þegar Jónbi lést í hörmulegu bifhjólaslysi við Laugarvatn,“ segir í færslunni.
Hún segir eiginmann sinn hafa verið hrók alls fagnaðar og að hans sé sárt saknað.
„Við fjölskyldan sitjum hér saman í sárum og skiljum ekki hversu ósanngjarnt lífið getur verið.“