Þrír stórir skjálftar frá miðnætti

Enn skelfur jörð á skjálftasvæðinu milli Keilis og Fagradalsfjalls.
Enn skelfur jörð á skjálftasvæðinu milli Keilis og Fagradalsfjalls. mbl.is/Eyþór Árnason

Þrír stórir skjálftar hafa mælst frá miðnætti á Reykjanesskaga. Sá fyrsti var af stærðinni 4,1, sem varð rétt eftir miðnætti í gærkvöldi, og annar 4,2 að stærð, um hálfátta í morgun. 

Þá varð skjálfti rétt fyrir klukkan hálfníu í morgun og benda fyrstu mælingar til þess að hann hafi verið yfir 4,2 að stærð.

Enn mælist enginn gosórói og virðist sem kvikan sé enn að reyna að brjóta sér leið í gegnum jarðskorpuna, að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofu. Skjálftar í gær hafi verið gikkskjálftar á svæðum utan kvikugangsins. 

Kvikan er á innan við eins kílómetra dýpi og erfitt á þessu stigi að tilgreina dýpið nánar en svo. Þá skalf jörð í gær og fannst stærsti skjálftinn vel á höfuðborgarsvæðinu en hann var 4,5 að stærð.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka