Gasmengun í öllum þéttbýliskjörnum Reykjanesskaga

Vænta má mikillar mengunar í þéttbýliskjörnun Reykjaness alveg fram eftir …
Vænta má mikillar mengunar í þéttbýliskjörnun Reykjaness alveg fram eftir degi á morgun. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands

„Það er sérfræðingur frá okkur þarna nálægt gosstöðvunum til þess að mæla og það hafa mælst óholl og hættuleg gildi þar sem fólkið stóð, en í gasmekkinum sjálfum voru hæstu gildin,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Greint var frá gríðarlegri mengun við gosstöðvarnar fyrr í kvöld og al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra biðlaði til almennings að fara ekki að gosstöðvunum eins og er. 

Um er að ræða mengun af völdum brennisteinstvíoxíðs, sem getur valdið ertingu í augum, nefi og koki. Skaðleg áhrif mengunarinnar eru tengd því þegar efnið kemst í neðri öndunarveginn, niður í lungun og þá geta alvarleg einkenni komið fram, eins og greint er frá á vef landlæknis.

Gasmengun nái alla leið til Borgarfjarðar

Segir Helga að það sé vissulega nýbyrjað að gjósa og því sé ekki búið að mæla allt, en í ljósi þess að hægviðri er á svæðinu þá gæti orðið gasmengun í öllum þéttbýliskjörnum á Reykjanesi í nótt og fram eftir degi á morgun. 

Síðan má búast við gasmengun alveg upp í Borgarfjörð og svo á morgun þá snýst til norðanáttar og þá kemur sú mengun aftur til suðurs og þá gæti það farið yfir höfuðborgarsvæðið“.

Eru því mestu áhrifin á Reykjanesskaga og upp í Borgarfjörð og það sé ekki fyrr en seinni partinn á morgun sem norðanáttin lætur á sér kræla og aðstæður verða betri.

„Það er ekki fyrr en seinni partinn á morgun sem við erum komin í ákveðna norðanátt að aðstæður verða góðar, átta til tíu metrar á svæðinu þá fer gasmengunin í góðum straum beint til suðurs og þá ætti að vera öruggt að vera þarna í nágrenninu,“ segir Helga.

Veðráttan skiptir öllu máli

Hún segir veðrið breyta miklu þegar kemur að gasmengun.

„Það skiptir höfuðmáli og vindátt og stöðugt loft. Þannig að núna er mjög stöðugt loft yfir svæðinu. Þegar maður lítur í átt gosstöðvunum þá er orðin svona móða þarna yfir. En ef það er óstöðugt loft þá sér maður, eins og maður kannast við í síðasta gosi og þarsíðasta gosi – þá sá maður reykinn eða brennisteinstvíoxíð rísa upp og vera eins og slikja á skýjunum fyrir ofan sem var ekki endilega að ná til jarðar,“ segir hún.

„Þannig að næsta sólarhring má víða búast við mengun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert