Hættusvæðið í kringum gosstöðvarnar við Litla-Hrút, sem urðu til fyrr í dag, er töluvert stórt og stærra en svæðið þar sem gossprungurnar sjálfar eru.
Þetta kom fram í máli Kristínar Jónsdóttur, eldfjalla- og jarðskjálftafræðings hjá Veðurstofu Íslands, á upplýsingafundi almannavarna sem haldinn var klukkan 22 í kvöld.
Kristín sagði að við þetta mat væri tekið inn í reikninginn hvert líklegt væri að hraun myndi flæða.
En hún benti líka á að ljóst væri að kvikugangurinn næði mun lengra en sprungurnar sem myndast hafa á yfirborðinu.
„Að Keili og líklega undir Keili,“ bætti Kristín við.