Hraunið rennur að mestu til suðurs

Kvikustrókar standa upp úr jörðu, þar sem í morgun var …
Kvikustrókar standa upp úr jörðu, þar sem í morgun var friðsælt hraun. mbl.is/Árni Sæberg

„Eins og staðan er núna þá er hraunið að renna að mestu leyti suður,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sér­fræðing­ur á sviði jarðskorpu­hreyf­inga á Veður­stofu Íslands.

Greinir hann frá því að hann hafi verið búinn að ákveða að fara, í ljósi þess að það hafi verið tímaspursmál áður en kvikan kæmi upp á yfirborðið. 

Þegar við lögðum af stað rúmlega tvö þá var eitthvað farið að byrjað að bera á, og það var svona spurning hvort það væri fyrirboði. Svo var það bara að aukast smám saman, en við vorum nú á leiðinni hingað. Við vorum bara rétt hjá þegar gosið byrjaði,“ segir Benedikt.

Upptök eldgossins eru um tveimur til þremur kílómetrum norðar en …
Upptök eldgossins eru um tveimur til þremur kílómetrum norðar en þar sem síðasta gos hófst. mbl.is/Árni Sæberg

„Alltaf jafn magnað“

Spurður hvort margt fólk sé á svæðinu segir hann að hann sé staddur austan við Litla-Hrút og sé því ekki alveg klár á því hversu margir séu vestan megin. Að sögn Benedikts er þetta þó talsverð ganga að gosstöðvunum og því býst hann ekki við því að mikið verði um að vera strax. Er gosið norðan við Litla-Hrút og því um tveimur til þremur kílómetrum frá upptökum síðasta goss, í ágúst í fyrra.

Segir Benedikt að framhaldið ráðist af því hvernig þetta eigi eftir að þróast og að Veðurstofa eigi eftir að fylgjast vel með þessu. Bætir hann einnig við að settir verði upp gasmælar á svæðinu og þá sé ekkert annað í stöðunni en að fylgjast með þróuninni.

Spurður hvernig sé að fylgjast með gosinu segir hann að þetta sé ákveðin upplifun. 

„Það er alltaf jafn magnað að sjá hvað náttúran getur gert,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert