Loka fyrir gosstöðvarnar: Gríðarleg gasmengun

Frá eldgosinu við Litla-Hrút í dag.
Frá eldgosinu við Litla-Hrút í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra beinir þeim tilmælum til almennings að fara ekki gangandi að gosstöðvunum á þessari stundu.

Gríðarlega mikil gasmengun er á svæðinu og er það mat sérfræðinga að eldgosið sem hófst við Litla-Hrút síðdegis í dag sé talsvert stærra en gos síðustu ára. 

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands mæla nú styrk gastegunda sem berast frá gosinu. Niðurstöður úr þeim mælingum verða ekki tilbúnar fyrr en í fyrramálið. 

Þegar veður er stillt eins og nú er hætta á að gas safnist saman. Þetta gas er lyktarlaust og afar hættulegt við innöndun. 

Spá morgundagsins óhagstæð

Veðurspá fyrir morgundaginn er óhagstæð en eins og spáin lítur út núna verður norðanátt og gasmengun mun því leggja yfir gönguleiðir sunnan við gosstöðvarnar. 

Engin gönguleið hefur verið útbúin norðan megin við gosið en þar er úfið hraun sem erfitt er yfirferðar. Fólki er því ráðið frá því að nálgast gosstöðvarnar þaðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert