Skjálftaskuggi norðaustur af Fagradalsfjalli

Horft til norðurs í átt að Keili.
Horft til norðurs í átt að Keili. mbl.is/Eyþór Árnason

Skjálftaskuggi hefur myndast norðaustur af Fagradalsfjalli og suðvestur af fjallinu Keili.

Rannsóknarstofa Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá greinir frá þessu á Facebook.

Þar segir að skjálftaskugginn hafi orðið til frá og með liðnum laugardegi. Þegar talað er um svæði í skjálftaskugga merkir það að þar verði nær engir skjálftar, utan ef til vill lítilla jarðhræringa.

Kvikan að safnast þar fyrir

„Ein möguleg túlkun á þessu fyrirbæri er að kvikan sé að safnast þar fyrir einfaldlega vegna þess að hún á erfitt með að komast alla leið til yfirborðs,“ segir í færslunni.

„Ef yfirþrýstingurinn í kvikunni verður meiri en togstyrkur skorpunnar ofan við, þá brestur haftið og kvikan rís til yfirborðs í eldgosi.“

Vísað er til grafs sem vísindamenn við Karlsháskóla í Prag hafa unnið upp úr skjálftavirkni síðustu daga, og sjá má hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert