Talið er að gossprungan við Litla Hrút sé um 200 metra löng og má sjá kvikustróka stíga þar upp úr. Vísindamenn Veðurstofunnar eru á svæðinu við mælingar.
Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebooksíðu Veðurstofu Íslands. Þar segir að gosið hafi hafist um um klukkan 16.40.
„Veðurstofa Íslands varð vör við óróa á skjálftastöð við Fagradalsfjall kl. 14 og hóf að fylgjast með honum og bar saman við óróa á sömu stöð í upphafi eldgosanna 2021 og 2022. Eldgosið er að koma upp í lítilli dæld rétt norður af Litla Hrút og rýkur úr því til norðvestur. Talið er að sprungan sé um 200 metra löng og má sjá kvikustróka stíga þar upp úr. Vísindamenn Veðurstofunnar eru á svæðinu við mælingar.
Gangan að gosinu er löng og landslagið krefjandi, við hvetjum því fólk til þess að bíða átekta og fylgja fyrirmælum Almannavarna,“ segir í færslu Veðurstofunnar.