Hermann Nökkvi Gunnarsson
„Ég fæ ekki séð hvernig er hægt að halda því fram að ákvörðunin sé með nokkrum hætti vel undirbúin,“ segir Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í samtali við Morgunblaðið um fullyrðingar Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Hún sagði í síðustu viku að ákvörðun sín, um að stöðva hvalveiðar tímabundið, hefði verið „óvenjulega vel undirbyggð“ ákvörðun.
Atvinnuveganefnd fékk gögn frá ráðuneytinu í síðustu viku sem áttu að skýra hvað lá að baki reglusetningunni. Teitur kveðst vera búinn að fara yfir öll gögnin og segir að það hljóti að vanta einhver fleiri gögn til að rökstyðja ákvörðunina.
„Ég trúi því ekki að þetta sé allt og sumt. Það er ekki að finna hvernig ráðherra lagði sjálfstætt mat á skýrslu fagráðsins og þá lögfræðilegu álitsgerð sem þurfti að liggja fyrir um heimildir til reglugerðarsetningarinnar. Það er heldur ekki að finna neitt mat á áhrifum þessarar ákvörðunar á starfsfólk og starfsemina.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.