Undirbúa færslu á möstrum

Landsnet býr sig nú undir að verja möstur með varnargörðum.
Landsnet býr sig nú undir að verja möstur með varnargörðum. mbl.is/Eyþór

Landsnet býr sig nú undir nokkrar sviðsmyndir ef til eldgoss kæmi á Reykjanesskaga. Ef hraun fer að renna í átt að Suðurnesjalínu 1 þá hefur Landsnet undirbúið ýmsa möguleika til að bregðast við. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti. 

Ein sviðsmyndin gerir ráð fyrir að hraun muni renna til norðurs og stefna á línuleið Suðurnesjalínu 1. Sú lína liggur sunnan við Reykjanesbraut frá Hafnarfirði og að Fitjum í Reykjanesbæ og er eina línan sem flytur raforku til og frá Suðurnesjum nú. 

Landsnet hefur síðustu daga farið um svæðið og metið hættuna út frá því að sú sviðsmynd myndi raungerast. Nokkrir möguleikar eru í stöðunni. 

Myndi það taka nokkra daga fyrir hraunið að komast að línufarveginum og leggur Landsnet áherslu á að verja möstrin með varnargörðum, styrkja þau eða færa til. Þegar er byrjað að hanna færslur á möstrum og undirbúa efnistök. 

Geta séð svæðinu fyrir forgangsrafmagni

Ef Suðurnesjalína 1 skyldi fara út fyrirvaralaust tekur þá við svokallaður eyjaresktur. Það þýðir að virkjanir á svæðinu, Reykjanesvirkjun og Svartsengi, geta séð svæðinu fyrir forgangsrafmagni.

Því til viðbótar er Landsnet tilbúið með færanlegt varaafl sem verður flutt til Suðurnesja komi til þess að línan leysi út.

Landsnet hefur svo einnig búið sig undir að hægt verði að flytja varaafl inn á Reykjanesið með stuttum fyrirvara ef til rafmagnsleysis kæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert