„Þetta er ekki stórgos eins og Holuhraun eða neitt í líkingu við Skaftárelda eða neitt slíkt. Þetta er þokkalega öflugt gos miðað við gosin á skaganum og öflugra en hin sem á undan komu.“
Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Eldgosið sem hófst við Litla-Hrút síðdegis í gær, mánudag, er um tíu sinnum stærra en fyrsta gosið sem varð í Geldingadölum árið 2021 og um þrisvar til fjórum sinnum stærra en gosið sem braust út í Meradölum í ágúst á síðasta ári.
„Þetta er ekki stórgos og þetta er ekki nein katastrófa en við verðum að umgangast það af virðingu. Fyrst um svona stórt gos er að ræða þá er þarna mikil gasmengun nálægt og við verðum að passa okkur á að vera ekki í einhverjum hópum þarna nálægt þessu og geta lent í einhverjum vandræðum.“
Magnús segir gas geta borist í byggðarlög nálægt gosstöðvunum en að fólk verði þá bara að taka því.
„Það mun þá verða tímabundið ástand sem þarf að taka á með því að vera inni kannski í einhverja klukkutíma. Við vitum ekki hverju fram vindur. Stundum fara svona mekkir aðallega upp í loft og koma ekki endilega mikið niður nálægt, en við vitum ekki hvernig þetta hegðar sér. Við verðum að taka þessu af fullri alvöru og með virðingu en við eigum heldur ekkert að fara á taugum út af þessu.“
Eru líkur á því að þetta eldgos standi lengur yfir en gosin í fyrra og árið 2021?
„Við vitum ekkert um það. Við verðum bara að búa okkur til mögulegar sviðsmyndir og síðan fylgjumst við með og munum vakta þetta mjög vel og sjá hverju fram vindur. Svo verða bara ákvarðanir teknar um hvað skuli gerast næst. Það verður bara að fara eftir stöðunni hverju sinni,“ segir Magnús og rekur svo atburðarásina í fyrra og hitteðfyrra.
„Við fengum tvö gos. Annað þeirra byrjaði mjög rólega, þetta fyrra, en síðan óx því nú aðeins ásmegin og stóð yfir í sex mánuði. Það varð að lokum það sem kallað er meðalgos í íslensku samhengi.
Síðan kom annað sem var dálítið kröftugra í upphafi en það stóð bara yfir í tæpar þrjár vikur og var svo búið. Efnið sem kom upp þar var ekki nema átta prósent af því efni sem kom upp í fyrra gosinu.
Hvernig þetta svo hegðar sér – þetta er miklu kröftugra í upphafi – mun það standa lengi? Við vitum það ekki, en ef það verður svona kröftugt áfram þá stendur það sjálfsagt ekki lengi yfir.“
Magnús segir að vísindamenn séu að læra og átta sig á hvernig mögulegt er að önnur gos, sem mynduðu töluvert af hrauni og langar sprungur á Reykjanesskaga, hafi verið hérna áður fyrr.
„Þau gætu vel hafa orðið á svipaðan hátt, sem sagt í nokkrum skrefum. Síðan þegar við sjáum þetta hundruðum árum seinna þá lítur allt út fyrir að hafa orðið á sama tíma. Við vitum ekki hvort þetta er raunverulega svona en það eru vísbendingar um það.
Nóttin er ung og við verðum bara að sjá hverju fram vindur. Það mat sem við erum með núna er mjög gróft. Við vitum að þetta er mun stærra og við höfum notað töluna svona nálægt 100 rúmmetrum á sekúndu, því þetta er verulega stærra en miðjugosið sem var um 30 rúmmetrar á sekúndu til að byrja með.
Við munum ekki hafa nákvæmar tölur fyrr en búið er að mæla þetta almennilega. Það er forgangsatriði morgundagsins [þriðjudagsins] að ná mælingum úr lofti til að hægt sé að kortleggja hraunið eins og það er og þá fáum við áreiðanlegri tölur og það hjálpar við að meta líklega framvindu,“ segir hann.
Hvað þýðir þetta mikla flæði? Erum við að sjá forsmekkinn að einhverju miklu stærra á næstu árum?
„Ef við horfum á sögu eldgosa á Reykjanesskaga, þá eru þau ekki stór. Þau eru yfirleitt lítil eða upp í meðalstór. Ég held að það sé engin ástæða til að halda að við séum að sjá eitthvað nýtt þar.“
Segir Magnús miklu frekar hægt að segja að hin gosin hafi skorið sig úr miðað við það sem algengast er að sjá á Íslandi.
„Við fáum yfirleitt gos sem er að koma upp úr kvikuhólfi þar sem þrýstingurinn á því verður til að mikið gos sé í upphafi en svo dregur mjög hratt úr því. Fyrsta gosið var akkúrat ekki þannig. Seinna gosið var miklu líkara því en samt miklu minna.
Þetta gos sem við erum að sjá núna – það verður bara að koma í ljós hvernig það hegðar sér á næstu klukkustundum og sólarhringum. Þá vitum við meira. En við búum á Íslandi, eldfjallaeyju, og verðum að vera við því búin að svona geti gerst og við munum alveg ráða við það.“
Hann tekur fram að gostímabil sé hafið og að það sé greinilegt að það megi reikna með því að það komi hlutfallslega meira af kvikunni upp á yfirborðið núna.
„Þegar svona innskotaatburðir verða, gliðnunaratburðir, þá byrjar kvikan fyrst á að fylla í rýmið sem gliðnar í jarðskorpunni,“ segir Magnús.
„Þannig að hvort þetta er síðasti atburðurinn í þessari atburðarás, við vitum ekkert um það, en það er vísbending um það að við getum ekki gefið okkur að þetta sé síðasta gosið. Við verðum bara að bíða og sjá.“