Efla þarf eftirlit með matvælum og dýravelferð á Íslandi á vissum sviðum þar sem enn er rými til að gera betur.
Þetta kemur fram í ársskýrslu ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, um framkvæmd opinbers eftirlits með matvælum og dýravelferð á Íslandi og Noregi árið 2022.
ESA ber ábyrgð á eftirliti með því hvernig Ísland og Noregur innleiða EES-reglur um matvælaöryggi, fóðuröryggi og heilbrigði og velferð dýra.
Í maí á síðasta ári sendi ESA Íslandi formlegt áminningarbréf vegna rangrar innleiðingar á reglum EES um hollustuhætti matvæla og ófullnægjandi eftirlits með framleiðslu á fiskilýsi.
Í október árið 2021 vísaði ESA máli til EFTA-dómstólsins þar sem Ísland hafði ekki tryggt að til staðar væri fullnægjandi kerfi eða ráðstafanir til að tryggja að aukaafurðum dýra væri fargað á viðunandi hátt.