„Ég er að fara að lýsa eldgosi í beinni“

Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins voru með þeim fyrstu sem sáu …
Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins voru með þeim fyrstu sem sáu eldgosið með berum augum síðdegis í gær. Um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar er jarðvísindamaðurinn Magnús Tumi Guðmundsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Já, drífðu þig við erum að fara í loftið,“ sagði Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, um 25 mínútum eftir að staðfest var að eldgos væri hafið við Litla-Hrút á Reykjanesskaga síðdegis í gær.

Blaðamaður dreif sig af stað frá Hádegismóum niður að Reykjavíkurflugvelli. Þegar á völlinn var komið kom í ljós að á dagskrá væri þyrluflug, ekki flug með flugvél eins og blaðamaður hélt, yfir eldgosið.

Skömmu fyrir brottför upphófst mikið orðaskak milli ljósmyndara og hins reynda hamfarablaðamanns Kristjáns Más Unnarssonar um hver myndi sitja hvar til að ná besta sjónarhorninu af eldgosinu.

„Ég er að fara að lýsa eldgosi í beinni hérna,“ sagði Kristján. „Ég kom fyrst,“ sagði Árni og þar við sat. Morgunblaðið var með sína fulltrúa á hægri kantinum og Stöð 2 fyrir miðju og til vinstri.

Rúmri klukkustund eftir að eldgos hófst við Litla-Hrút.
Rúmri klukkustund eftir að eldgos hófst við Litla-Hrút. mbl.is/Árni Sæberg

Opin hurð yfir eldgosi

Splunkunýtt eldgos er kynngimögnuð sjón, eins og lesendur kannast kannski við, enda þriðja árið í röð sem eldsumbrot verða á Reykjanesskaganum. Þyrla Norðurflugs, sem blaðamaður og ljósmyndari fengu að fara með, er ný og með gluggum sem henta vel til að skoða eldgos.

Svo er líka hægt að opna rennihurð til að mynda, og þótti blaðamanni nú nóg um þegar annar þyrluflugmaðurinn opnaði hurðina fyrir ofan eldgosið.

Til marks um hversu mikið á gengur þegar jörðin ákveður að létta aðeins á þrýstingnum þá fannst hitinn frá hrauninu vel inn í þyrluna og þurfti nokkrum sinnum að þurrka rúðurnar í þyrlunni, áður en þýski flugmaðurinn keyrði loftræstinguna í botn.

Þyrla Norðurflugs var fyrsta vélin á gosstöðvarnar við Litla-Hrút.
Þyrla Norðurflugs var fyrsta vélin á gosstöðvarnar við Litla-Hrút. mbl.is/Árni Sæberg

Hópurinn var með þeim fyrstu á svæðið og á þeirri einu og hálfu klukkustund sem flugið tók, með stoppi, mátti sjá hraunið vaxa jafnt og þétt fyrir framan mann.

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug síðan yfir gosið um 20 mínútum á eftir Norðurflugi og lenti svo í grennd við okkur, rétt suðaustan við þar sem gosstöðvarnar eru. Með þyrlunni kom Magnús Tumi, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, og gat sett fréttamennina inn í málin, 900 metra löng sprunga og kraftmeira upphaf en í fyrri eldgosum.

Magnús Tumi Guðmundsson og Björn Oddsson komu af himnum ofan …
Magnús Tumi Guðmundsson og Björn Oddsson komu af himnum ofan með þyrlu Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert