„Það lék allt á reiðiskjálfi. Maður finnur hvað manneskjan er lítil í samanburði við þessi stóru öfl,“ segir fornleifafræðingur sem var á vettvangi við rannsóknir á seljabúskap fyrri alda á Reykjanesskaga þegar jörð tók að skjálfa í síðustu viku.
Hafði Fornleifastofnun borist ábending frá Minjastofnun um að sel á Reykjanesskaga væru í fyrirsjáanlegri hættu vegna yfirvofandi eldgosavirkni. Fornleifafræðingar héldu því á vettvang ásamt Magnúsi Á. Sigurgeirssyni jarðfræðingi til að rannsaka sel skammt austan við Keili áður en það yrði um seinan.
Elín Ósk Hreiðarsdóttir fornleifafræðingur var á staðnum og segist í samtali við mbl.is fegin því að rannsókninni á selinu hafi lokið áður en eldgosið við Litla-Hrút hófst.
Óvíst er hvort hægt hefði verið að halda áfram með rannsóknina á selinu í þessari miklu nálægð við eldgosið sem nú er hafið.
Elín segist þó vona að hraun úr eldgosinu við Litla-Hrút renni ekki yfir selið. Það sé ekki endilega líklegt. Meiri hætta stafi mögulega af eldgosum framtíðarinnar en leiddar hafa verið að því líkur að núverandi eldsumbrot séu einungis upphafið að lengra jarðhræringatímabili á Reykjanesskaga.
„Þessi staður er í talsverðri hættu. Þarna fyrir helgi voru miklar drunur af skjálftunum og við tókum eftir því að grjót var farið að hrynja ofan í tóftirnar sem við vorum að skoða. Oft finnur maður minna fyrir skjálftunum þegar maður er úti heldur en inni. Þannig var það ekki þarna. Jörðin skalf stanslaust,“ segir Elín og bætir við:
„Við vorum hálffegin að komast út af svæðinu. Þetta er náttúrulega ógnvekjandi en líka svo magnað. Maður finnur hvað manneskjan er lítil í samanburði við þessi stóru öfl.“
Elín útskýrir að sel séu eins konar sumarhús fyrri alda. Þar hafi menn dvalið á sumrin með bústofn sinn í þeim tilgangi að hlífa heimahögunum og leyfa skepnunum að bíta annars staðar en þar. Í kringum selin var yfirleitt beitiland auk þess að mjólkurafurðir voru þar unnar og ýmsum grösum safnað.
Í dag eru selin skoðuð með litlum bor sem komið er fyrir ofan í jörðinni en á þeim er eins konar lítill gluggi. Þá er ýmislegt skoðað, til dæmis gjóskulög og skordýr.
Rannsóknir á seljum geta því sagt okkur heilmikið um Íslandssöguna, stéttaskiptingu samfélagsins fyrr á öldum og efnahagslegar undirstöður bújarða.
Mörg sel eru á Reykjanesskaga og hafa ekki öll þeirra verið könnuð. „Það eru fleiri sel í hættu á þessu svæði og sömuleiðis ýmsar fornleifar.“
Segir Fornleifastofnun í fréttatilkynningu um seljarannsóknina að mikilvægt sé að „farið verði í stórátak í skráningu fornminja á Íslandi, bæði almennt og á svæðum þar sem fornleifar eru í fyrirsjáanlegri hættu vegna loftslagsbreytinga eða náttúruvár“.
Elín tekur undir þetta og bendir á að fornleifaskráning sé komin stutt á veg á Íslandi miðað við mörg önnur lönd. Slík skráning sé þó grunnur að öllum frekari fornleifarannsóknum.
„Það á eftir að skrá stóran hluta af landinu og þess vegna vitum við í rauninni ekki hversu mörg selin eða tóftirnar eru eða hve mikið af fornleifum er að finna.“