Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur heldur nú ásamt fleirum að gosinu til þess að komast að því hvort að gosið hafi í raun dvínað eða ekki.
Hann segir flugvöllinn, möstur og fleiri innviði örugga frá gosinu. Gjósa þyrfti í langan tíma til þess að flæðið næði að Suðurstrandarvegi.
Í samtali við mbl.is bendir hann á að jarðvísindamenn hafi séð í fyrri gosum að virknin færist meira og minna á einn gíg.
„Og það er einhvern veginn eins og það sé að gerast. Auðvitað var þetta eitthvað aðeins sterkara í byrjun, það var búið að ganga svo erfiðlega að koma upp og náttúrulega orðinn svolítill þrýstingur þarna á grunnu dýpi. Þetta var nú bara tíu sinnum stærra en ´21-gosið, þetta var nú ekki meira en það,“ segir Ármann.
Spurður hvort hafa þurfi áhyggjur af flugvellinum og fyrirhuguðu flugvallarstæði í Hvassahrauni segir hann það óþarft.
„Ekki á meðan þetta er þarna utan í, það er sunnan við vatnaskil þannig það fer allt í suður. Það þarf, miðað við stærðina á því, að vera ansi lengi að áður en það nær niður á Suðurstrandarveg. Í augnablikinu er það bara eins og við áttum von á, við þurfum að sjá í dag hvað er að gerast til að átta okkur á hvað er í húfi og eins og málin standa núna geta menn alveg andað rólega næstu daga og kannski viku, tvær. Ef þetta fer að endast eins og ´21-gosið gerði, ef þetta ætlar að vera að í einhverja sex, sjö mánuði, gæti það farið að færast nær Suðurstrandarvegi,“ segir Ármann. Möstrin á svæðinu séu enn örugg vegna staðsetningar.
„Möstrin eru alveg örugg af því þetta er sunnan við vatnaskil. Ef þetta er sunnan við vatnaskil þá fer það bara í áttina að Suðurstrandarvegi og það eina sem er þar, það er NATO-strengurinn og Suðurstrandarvegur sem gætu orðið fyrir einhverjum áhrifum, en það verður ekki fyrr en eftir einhverjar vikur.“
Þegar vikið er að nafni fyrir gosið og hvort að heitið „Litla-Hrútsgos“ sé ekki svolítið óþjált segist Ármann ekki hafa spáð mikið í það hingað til.
„Ég hef nú ekkert hugsað út í það, Hrútshraun eða eitthvað svoleiðis. [...] Það er kannski líka erfitt fyrir [ferðamennina], Hrútshraun, ég veit það ekki. En að vera að nota tvö, Litla-Hrútshraun, það er alveg rétt hjá þér – það er orðið svolítið teygt sko og óþjálla í munni. Eru það ekki Grindvíkingar sem ráða endanlega hvað þetta á að heita samkvæmt örnefnareglunum? Þeir verða bara að leggjast undir feld og finna eitthvað fallegt nafn á þetta,“ segir Ármann.
Hann segir gosið ekki hafa nein áhrif á gos í Kötlu eða Öskju. Þær eldstöðvar geti þó gosið án þess að gera langt boð á undan sér.
„Askja er líka að þenjast út, hún getur farið af stað með litlum fyrirvara. Sama með Kötlu, hún er komin langt fram yfir eðlilega meðgöngu. Vandamálið eins og með Kötlu er að við vitum í rauninni ekki hver aðdragandinn er, það er svona stóra vandamálið.“
Dvínandi kraftur gossins nú, reynist raunin sú, sé í takti við það sem áður hafi sést.
„Fyrsta ´21-gosið gaus sex mánuði og svo ´22-gosið miklu skemur og hugsanlega verður þetta bara einhverjir fimm dagar, vika, og svo bara er þetta búið og jafnvel styttra. Þetta er allt háð því annars vegar hvað kvikan á auðvelt með að komast upp og hvað er mikil kvika þarna niðri,“ segir Ármann.
„Nú er það mjög kröftugt af því að kvikan var búin að reyna að troðast og var alltaf stoppuð á þarna eins til tveggja kílómetra dýpi. Hún komst ekki ofar fyrr en fimm-skjálftinn braut endanlega haftið, þá komst það upp og varð voðalega kröftugt en þrýstingurinn er fljótur að falla vegna þess að það er ekki mikil kvika þarna niðri.“
Þannig það er töluvert minni kvika þarna á svæðinu en áður?
„Já, ég myndi halda það, það gæti farið að gera eins og ´21-gosið – þá var bara gat niður og það bara svona gutlaði upp. Ef það hefur myndast gat þarna niður fyrir einhverja sex, átta kílómetra, þá getur vel verið að það sulli í einhverja mánuði,“ segir Ármann.
Hann og kollegar hans mæla nú stöðuna á kvikunni til þess að komast að því hvort gosið hafi í raun dvínað eða ekki. Hann segir mögulegt að sami styrkur sé á gosinu nema nú dælist hraunið á sjálft sig svo það sjáist verr. Mæla þurfi ýmislegt til að skera úr um það.