Gosið hefur „mikið auglýsingagildi“

Eldgos getur lokkað fjölda ferðamanna til landsins.
Eldgos getur lokkað fjölda ferðamanna til landsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferðamálastjóri segir að eldgosið við Litla-Hrút muni hafa lítil áhrif á ferðamennsku hér á landi í sumar, þar sem erfitt er fyrir ferðamenn að finna flug og gistingu á þessum tíma árs. En ef gosið heldur áfram inn í haustið sé líklegt að fjöldi ferðamanna aukist.

„Svona viðburður hefur mikið auglýsingagildi,“ segir Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri í samtali við mbl.is. „Ég held að á allra næstunni mun þetta ekki hafa mikil áhrif á fjölda ferðamanna á Íslandi, en þegar við horfum fram í tímann getur þetta skipt máli.“

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri.
Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Myndi hafa áhrif í haust

„Nú vitum við ekkert hvernig þessu gosi vindur fram en ef þetta heldur áfram inn í haustið og veturinn þá er ekki ólíklegt að þetta stuðli að því að fjöldi ferðamanna verður meiri en við áttum von á,“ segir Arnar.

Hann segir hins vegar að gosið muni hafa lítil áhrif á fjölda ferðamanna í sumar enda flest hótelherbergi uppbókuð.

„Það er ósköp fyrir ferðamenn að finna flug og gistingu á þessum tíma.“

Í takt við þá ímynd sem við viljum

Eld­gosið við Litla-Hrút er þegar farið að vekja at­hygli út fyr­ir land­steinana. Fjölmargir erlendir fréttamiðlar hafa greint frá gosinu. Arnar segir að slíkur viðburður rími við þá ímynd sem Íslendingar vilji skapa um landið.

„Þessi viðburður er í rauninni einstakur. Þetta hefur hlotið talsverða umfjöllun vítt og breitt um heiminn nú þegar,“ segir hann. „Ísland er í umræðunni og áminning um Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn.

„Þetta hangir allt saman. Sú ímynd sem eldgos skapar er í takt við þá ímynd sem við viljum skapa okkur sem áfangastaður,“ segir Arnar að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert