„Ég er búinn að fara mörgum sinnum. Allt of mörgum sinnum, segir konan,“ sagði Bjarki Arnórsson og hló þegar blaðamaður mbl.is ræddi við hann við gosstöðvarnar snemma í kvöld.
Kvaðst hann hafa farið um tíu sinnum að fyrsta gosinu í Geldingadölum, en aðeins sjaldnar að gosinu í Meradölum í fyrra.
„Svo bara, um leið og byrjar að gjósa, þá leggur maður af stað.“
Fleiri urðu á vegi blaðamanns enda ljóst að margir hafa lagt eða reynt að leggja leið sína að Litla-Hrúti í kvöld, til að berja gosið augum.
Samt sem áður er varað við hættu á þessum slóðum, meðal annars vegna mikillar gasmengunar.