Á Bistró opnar innan skamms í Elliðaárdal við gömlu rafstöðina á bökkum Elliðaánna. Hjónin Andrés Bragason, matreiðslumeistari og Auður Mikaelsdóttir, framreiðslumeistari og listfræðingur, munu reka staðinn og þau hlakka til þess að taka á móti fyrstu gestunum. Unnið er að því hörðum höndum að klára framkvæmdir þessa dagana og opnað verður eftir að tilheyrandi rekstrarleyfi verða komin í hús.
„Við leggjum saman krafta okkar í þetta og stefnum að því að þetta verði skemmtilegur og góður áfangastaður fyrir fólk sem sækir Elliðaárdalinn heim.” Staðurinn verður opinn allt árið. Við Á Bístró hefur Orkuveita Reykjavíkur útbúið vatnsleikjagarð fyrir börn þannig að þetta er kærkominn viðbót við útivistarsvæði dalsins.
„Við bjóðum alla velkomna og verðum með góðar veitingar,” segir Andrés. Boðið verður upp á kaffi og aðra drykki og þar á meðal bjór á krana frá Ölvisholti. Matur sem verður á borð borinn er innblásinn af norrænum hefðum. Léttir réttir verða í forgrunni. „Við leggjum upp með það að hafa þetta í norrænum stíl. Við verðum með góðar súpur, til dæmis fiskisúpu og rétti fyrir grænkera að sjálfsögðu líka. Við munum bjóða upp á einfalda rétti úr góðum og ferskum hráefnum.”
Dýreindiskaffivél er kominn í Elliðaárdalinn sem bíður þesss að mala fyrir fyrstu gestina. „Við stefnum að því að það verði mjög góð stemming þarna, þetta er æðislegt útivistarsvæði og gott að sitja þarna úti í góðu veðri. Við erum líka mjög spennt fyrir vetrinum og ýmsum uppákomum sem stendur til að halda.“