„Sáum fyrir okkur stórslys“

„Maður er enn þá í svolitlu sjokki,“ segir Arna Sjöfn Ævarsdóttir í samtali við mbl.is en þau Unnar Snær Pétursson, unnusti hennar, sem bæði eru yfirmenn hjá bílageymslufyrirtæki á Suðurnesjunum – og kynntust raunar þar – urðu fyrir óskemmtilegri reynslu í umferðinni síðdegis í dag þegar ökumaður vörubifreiðar með tengivagn frá Samskipum hugðist taka fram úr fimm bifreiðum og lá við stórslysi. 

Ökumaður Samskipa reyndi að aka fram úr fimm bifreiðum í …
Ökumaður Samskipa reyndi að aka fram úr fimm bifreiðum í einu á vegarkafla milli Borgarness og Munaðarness þar sem ein akrein liggur í hvora átt og segir Arna Sjöfn Ævarsdóttir, sem tók myndskeið af atvikinu, banaslys auðveldlega hafa getað orðið. Skjáskot/Myndskeið Örnu

„Fyrst tókum við eftir vörubílnum á bak við okkur þar sem hann sveigði fram og til baka, augljóslega að bíða eftir tækifæri til að taka fram úr fimm fólksbílum,“ segir Arna frá og gerði myndavélina klára til að eiga gögn um þann atburð sem í uppsiglingu var.

Virtist ekki sjá bifreið sem kom á móti

„Ég fann bara á mér, miðað við veginn sem við vorum á, að eitthvað var að fara að gerast,“ segir Arna en þau Unnar voru stödd milli Borgarness og Munaðarness á leið í sumarbústað í fríinu sínu. „Maður er alltaf smeykur þegar svona stórir bílar eru að taka fram úr á þröngum vegum þar sem skyggni er lítið,“ heldur hún áfram, eitt sé að taka fram úr einni bifreið, fimm sé öllu stærra mál.

„Þetta var stór vörubíll og líka með tengivagn. Unnar hægði á sér þegar við tókum eftir bílnum sem var að koma á móti og okkur þótti undarlegt að vörubílstjórinn virtist ekki sjá þann bíl,“ segir Arna og kveður þau hafa verið á 80 til 85 kílómetra hraða miðað við klukkustund en hámarkshraði þar sem atvikið átti sér stað er 90.

„Við sáum fyrir okkur stórslys í vændum, Unnari brá svo mikið að hann setti bílinn í bakkgír á fullri ferð, við bjuggumst við að vörubíllinn myndi skjóta sér aftur inn á rétta akrein fyrir framan okkur en ekki halda áfram og stofna svona mörgum í hættu.

Auðveldlega getað orðið banaslys

Ökumaður bifreiðarinnar fyrir framan þau stoppaði úti í kanti „og konurnar í bílnum sem kom á móti rétt náðu að keyra út í móa og sleppa við slys, þær náðu ekki einu sinni að útskotinu,“ segir Arna og kveður það hræðilega tilhugsun hvað hefði getað gerst hefði allt farið á versta veg og aðrir ökumenn ekki brugðist svo skjótt við sem raun var á.

Örnu og Unnari leist ekki á blikuna þegar vörubifreiðarstjórinn lagði …
Örnu og Unnari leist ekki á blikuna þegar vörubifreiðarstjórinn lagði í framúrakstur á þröngum vegi og fólksbifreið á leið á móti honum úr gagnstæðri átt. Ljósmynd/Aðsend

„Þarna hefði auðveldlega getað orðið banaslys, börn hefðu getað verið í bílunum,“ segir hún alvarleg í bragði. „Þarna er manneskja sem hefur akstur að atvinnu, hvernig væri það ef læknar eða leikskólakennarar tækju svona sénsa í sinni vinnu?“ spyr Arna. „Þetta var bara rosalegt sjokk og ég er mjög glöð yfir því að allir brugðust svona skjótt við fyrir utan bílstjórann sjálfan sem lagði okkur öll í mikla hættu,“ segir hún enn fremur og kveður augljóst að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem ámóta komi upp hjá því fyrirtæki sem í hlut átti.

„Mjög margar athugasemdir undir færslunni [á Facebook] gefa það til kynna að þessir bílstjórar hegði sér oft svona – alls staðar á landinu,“ segir Arna og bætir því aðspurð við að atvikið hafi þó ekki eyðilagt fríið fyrir þeim Unnari. „Ég fékk góðan mat alla vega,“ segir hún og hlær í fyrsta sinn í samtalinu. „Núna erum við á leið til baka til Keflavíkur, ég er úr Kópavoginum en Unnar er Sandgerðingur, við höfum hins vegar búið lengi í Keflavík,“ segir Arna Sjöfn Ævarsdóttir að lokum.

Atvikið harmað í ranni Samskipa

„Við náttúrulega hörmum þetta atvik mjög, þetta er engan veginn í samræmi við verklag Samskipa,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, af atburðinum í dag og kveður málið litið mjög alvarlegum augum. „Það er búið að ræða við bílstjórann og svo verða næstu skref skoðuð á morgun,“ segir Þórunn.

Í hvers konar farveg fara svona mál?

„Þetta er ekki algengt hjá okkur, þetta verður bara skoðað allt núna, á morgun verður haldinn fundur og ítarlega farið yfir málið,“ segir Þórunn að lokum af atburðum á veginum milli Borgarness og Munaðarness í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert