„Ég lenti hér í gærkvöldi og þá voru fréttir kvöldsins auðvitað þetta samkomulag um að Tyrkir hygðust klára aðildarferli Svíþjóðar sem er ánægjulegt enda löngu kominn tími á það og Svíþjóð hefur staðið við allt sitt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í spjalli við mbl.is, stödd á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins NATO í litáísku höfuðborginni Vilníus.
Í dag, þriðjudag, kveður hún helstu umræðuefni fundarins hafa verið öryggismál almennt og stuðning við Úkraínu í stríðinu við Rússa. „Svo var ég að koma af fundi utanríkisráðherra þar sem við funduðum með Georgíu, Moldóvu og Bosníu-Hersegóvínu. Svo er það morgundagurinn, Selenskí [Úkraínuforseti] er mættur hingað og það verður áhugavert,“ segir ráðherra.
„Verður þá rætt um rétt orðalag varðandi framtíð Úkraínu innan NATO og við þurfum bara að sjá til hvernig sá texti lítur út á endanum en það sem þarf líka að koma fram á þessum fundi er að Svíar eru að klára sín mál,“ segir Þórdís.
Meðal annarra stórmála fundarins kveður hún áframhaldandi einhug NATO-ríkja og skýrt loforð um áframhaldandi stuðning fyrir Úkraínu, „bæði tæknilegan stuðning svo Úkraínumenn geti varið sig og sín landamæri en líka skýra vegferð inn í Atlantshafsbandalagið, vilji Úkraínumanna þar er skýr og við höfum lýst því yfir að okkar stefna sé opnar dyr þangað inn“, segir ráðherra.
Hve langan tíma tæki slíkt ferli?
„Já, það er nú stóra málið, hver tímalínan geti verið að skilyrðum uppfylltum. Um það er ekki deilt að Úkraína er ekki að fara að verða aðili að NATO á næstu vikum eða mánuðum heldur eru Úkraínumenn að kalla eftir skýrum svörum um leiðina þangað inn og ég er þeirrar skoðunar að þeir eigi það skilið frá okkur,“ svarar hún.
Nú sé verið að breyta svokallaðri NATO-Úkraínunefnd í NATO-Úkraínuráð, „sem hljómar kannski bara eins og orðalagsbreyting en er efnisleg breyting sem skiptir máli og það er alveg skýr lína um það frá ríkjum Atlantshafsbandalagsins að framtíð Úkraínu er þar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, stödd á leiðtogafundi NATO í Litáen.