Sjö þúsund Íslendingar á Ozempic

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að sjö þúsund manns …
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að sjö þúsund manns séu á lyfinu Ozempic hér á landi, en að sú tala sé ekki endilega mjög há miðað við hversu margir eru með sykursýki týpu 2. Samsett mynd

Um sjö þúsund Íslendingar eru á sykursýkislyfinu Ozempic. Yfirvofandi á Íslandi, og í Evrópu allri, er tímabundinn skortur á lyfinu. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að talan þurfi ekki endilega að teljast há, enda margir með týpu 2 af sykursýki. 

„Það er aukning í notkun, við erum ekki að sjá breytingarnar. Við þurfum að kalla eftir notkunartölunum. Það eru sjö þúsund manns á lyfinu í dag, það hefur aukist, en þetta er líka nýtt lyf,“ segir Rúna. Lyfið kom á markað árið 2019 og er samþykkt til notkunar við sykursýki. 

Sjúklingum mögulega forgangsraðað

Rúna segir Lyfjastofnun hafa byrjað að fylgjast með birgðunum eftir að tilkynningar bárust frá Evrópu um að skortur væri mögulega yfirvofandi.

„Við fórum fyrst og fremst að fylgjast með birgðunum og þá fórum við að skoða notkunina. Þetta verður náttúrulega að passa saman og þess vegna fórum við að bregðast við. Framboð og eftirspurn helst ekki alveg í hendur og þess vegna myndast þetta gat,“ segir Rúna. 

Lyfið er til og verður eitthvað til áfram en Lyfjastofnun hefur sent bréf til lækna um tímabundinn lyfjaskort.

„Við erum að tala um út árið á Íslandi og þá þarf kannski að forgangsraða sjúklingum,“ segir Rúna. 

Ozempic er þekkt til annarra nota og eru dæmi um að fólk noti lyfið til að grennast og halda sér grönnu. Rúna segir það ekki hlutverk Lyfjastofnunar að gera athugasemdir við notkun lyfja heldur sé það í höndum Embætti landlæknis og Sjúkratrygginga. 

„Þetta lyf er á lyfjaskírteini og það eru frekar ströng skilyrði fyrir að fá lyfjaskírteini. Það er alfarið í höndum Sjúkratrygginga. Það er ekkert sem við sjáum á notkuninni sem bendir til einhvers. Það er aukning, eins og í öllum löndum í kringum okkur. Sjö þúsund manns þarf ekki einu sinni að vera mikið, það eru margir með sykursýki týpu 2,“ segir Rúna.

Um 170 tilkynningar borist í Evrópu

Lyfjastofnun sendi ábendingu til Lyfjastofnunar Evrópu um möguleg tengsl Ozempic, og fleiri lyfja í samaflokki, og sjálfvígs- og sjálfsskaðahugsana. 

„Það komu fleiri tilkynningar frá hinum löndunum og það er verið að skoða þetta hjá Evrópsku lyfjastofnunni,“ segir Rúna. Skoðað er hvort bæta eigi viðvörunum í fylgiseðla lyfjanna. 

„Það hefur ekki verið sýnt fram á orsakasamhengi og það er það sem þarf að gera. Það þarf að gera það og það þarf að gera það með miklu stærra þýði en við erum með. Það eru komnar um 170 tilkynningar úr allri Evrópu,“ segir Rúna. 

Hún segir tilkynningarnar ekki vera margar miðað við þann fjölda sem er á lyfinu í allri Evrópu. Flestar aukaverkanir lyfjanna eru meltingartruflanir og því tengt. 

„Það er mjög mikilvægt að fá inn tilkynningar um aukaverkanir, þetta sýnir það,“ segir Rúna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka