Sverrir Þór ákærður í Brasilíu

Sverrir var handtekinn í apríl en hann hefur áður komið …
Sverrir var handtekinn í apríl en hann hefur áður komið við sögu hjá brasilískum yfirvöldum. Ljósmynd/Colourbox, brasilíska alríkislögreglan, Samsett mynd.

Sverrir Þór Gunnarsson, betur þekktur sem Sveddi Tönn, hefur verið formlega ákærður af ríkissaksóknara í Brasilíu. Sverrir var á miðvikudag ákærður fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot á alþjóðavísu, hlutdeild í sambærilegum brotum og skipulagða glæpastarfsemi. Þá er Sverrir sakaður um að vera leiðtogi glæpasamtaka. 

Þetta staðfestir heimild mbl.is innan brasilísku alríkislögreglunnar. Þá hafi Sverrir fullan rétt og tækifæri til þess að verjast gegn fyrrnefndum ákærum. 

Verði Sverrir sakfelldur fyrir fyrrnefnd brot er það sagt geta haft í för með sér meira en 45 ára fangelsisvist. 

Þegar Sverrir var ákærður á miðvikudag voru 84 dagar liðnir frá handtöku þann 12. apríl. Þá hafði lögreglan nýtt 75 daga til þess að rannsaka málið og hina níu til þess að vísa málinu áfram til ríkissaksóknara en níutíu daga ákærufrestur er sagður vanalega algjört hámark í Brasilíu. 

Hafi stjórnað samtökunum saman

Þá staðfesti Thiago Giavarotti, yf­ir­lög­regluþjónn hjá bras­il­ísku al­rík­is­lög­regl­unni áður, að Sverrir og brasilískur karlmaður hefðu í sameiningu stjórnað glæpasamtökum sem hefðu stundað inn- og útflutning fíkniefna. Þá sagði hann ekki algengt að erlendir aðilar væru hluti af starfsemi sem þessari í Brasilíu. 

„Þeir voru í viðskipt­um sam­an. Stund­um gat ann­ar keypt fíkni­efni af hinum. Þeir áttu líka sam­eig­in­lega kúnna þannig að ef ann­ar gat ekki boðið kúnn­an­um fíkni­efni gat hinn gert það. [...] Þeir voru vin­ir og viðskipta­fé­lag­ar ekki yf­ir­maður og starfsmaður,“ sagði Giavarotti á sínum tíma.  

Milljarðar í Match point

Eins og fyrr segir var Sverrir handtekinn þann 12. apríl á heimili sínu í Brasilíu en handtaka hans var hluti af umfangsmiklum aðgerðum brasilísku alríkislögreglunnar þar sem um þrjátíu manns voru handteknir. Aðgerðin var kölluð „Operation Match Point“ og tóku meira en tvö hundruð lög­regluþjón­ar þátt, þar á meðal frá Íslandi og Ítal­íu. 

Í aðgerðunum lagði lög­regla hald á 65 kíló af kókaíni, 225 kíló af kanna­bis­efn­um og 57 fast­eign­ir auk öku­tækja og skipa ásamt því að loka fyr­ir banka­reikn­inga 43 ein­stak­linga.

Lög­regl­an taldi verðmæti eign­anna sem lagt var hald á geta numið um 150 millj­óna bras­il­ísks ríal eða um 4,2 millj­örðum ís­lenskra króna.

Tóku skýrslu af Sverri vegna mála á Íslandi

Eins og mbl.is hefur áður greint frá fóru fjórir íslenskir lögreglumenn til Rio de Janeiro fyrir aðgerðirnar til þess að yfirheyra Sverri. Voru þeir í Brasilíu í tíu daga áður, á meðan og eftir að aðgerðum lauk, en rann­sókn ís­lensku lög­regluþjón­anna teng­ist bæði hundrað millj­óna peningaþvættismáli á Íslandi og fíkni­efnainn­flutn­ingi til Íslands.

Peningaþvættismálið er frá árinu 2019 og snýr að því að fjöldi fólks er grunaður um að hafa umbreytt um átta hundruð til níu hundruð millj­ón­um ís­lenskra króna í er­lenda mynt.

Talið var að pen­ingaþvættið hefði staðið yfir í á þriðja ár áður en embætti héraðssak­sókn­ara réðst í sam­ræmd­ar aðgerðir ásamt sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra vegna máls­ins. Þá staðfesti héraðssaksóknari við mbl.is að nærri fimmtíu manns væru með stöðu sakbornings í málinu. 

Hvað varðar fíkniefnamálið herma heimildir mbl.is að um sé að ræða mál sem kallað er stóra kókaínmálið þar sem flytja átti um 100 kíló af kókaíni til lands­ins í timb­ursend­ingu.

Þá er einnig talið að snert­ing sé við önn­ur stór fíkni­efna­mál, en upp­lýs­ing­ar frá frönsk­um yf­ir­völd­um úr dul­kóðaða sam­skipta­for­rit­inu EncroChat, sem var mikið notað af glæpa­mönn­um víða um heim, varð til þess að menn lögðu sam­an tvo og tvo við rann­sókn nokk­urra mála. Það átti meðal ann­ars við um salt­dreifara­málið svo­kallaða líkt og fram hef­ur komið við meðferð máls­ins fyr­ir dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert