„Þetta var alveg magnað, við lögðum þarna skammt frá og gengum svo þangað til við vorum í góðu sjónfæri við Keili og svæðið þar sem gosið var að hefjast,“ segir Julian Leclercq frá Belgíu í samtali við mbl.is en hann var, ásamt föruneyti, viðstaddur þegar eldgosið við Litla-Hrút á Reykjanesskaga hófst síðdegis í gær.
Komu Belginn og hópur hans á svæðið á sunnudag og létu þar fyrir berast aðfaranótt gærdagsins í þeirri von að sjá gosið hefjast og varð að ósk sinni.
„Svo stend ég þarna uppi á hæð þegar reykjarmökkurinn stígur upp og við æpum hvert á annað „það er byrjað, það er byrjað!“,“ lýsir Leclercq þeirri upplifun sinni að hafa orðið vitni að fyrstu augnablikum íslensks eldgoss í návígi sem líkast til ekki mjög margir hafa lifað – og örugglega enginn frá Belgíu.
Segir Leclercq hluta hópsins þá hafa virkjað dróna með myndavél og sent hann í loftið. Sjálfur hafi hann hins vegar gengið alveg að gosinu og tekið sínar myndir þar, þær fyrstu af þessu fagra en háskalega óbeislaða afli íslenskrar náttúru. „Ég hef aldrei náð að vera svona snemma á ferðinni, ég var allt of seinn þegar síðast gaus og þetta var yfirþyrmandi upplifun og svo fallegt, ég stóð hundrað metra frá, þetta hlýtur að vera það fallegasta á allri plánetunni,“ segir Leclercq og getur illa leynt hrifningu sinni.
Leclercq er raunar mikill Íslandsvinur, hefur verið búsettur hér á landi síðan 2018 og unnið ýmis störf. Nú starfar hann sem vinnumaður á bænum Hrauni á Skaga sem komst rækilega á kortið þegar hvítabjörn nokkur vappaði um þar í grennd í júní 2008 og var fljótlega felldur sem umdeilt varð.
„Ég var að vinna í Svíþjóð hjá hundasleðafyrirtæki og kynnist Íslendingi á leiðinni suður til Stokkhólms og sá bauð mér að koma með til Íslands,“ rifjar Leclercq upp, „tilgangurinn var þriggja vikna gönguferð og nú hef ég farið um allt landið. Ég hef starfað sem leiðsögumaður, smali, verið á sjó í Borgarfirði eystri og vinn núna á Hrauni, annast kýrnar og fleira,“ segir hann.
Belginn er hreinlega hugfanginn af íslenskri náttúru og lýsir því í löngu máli fyrir blaðamanni hve mikið honum þyki til landsins koma, hann hafi tekið aragrúa mynda mjög víða. „Svo var ég nú svo rogginn að segja við Samsung á Íslandi að ég gæti tekið betri myndir en þeir og Sveinn Tryggvason stjórnarformaður þar tók mig algjörlega upp á sína arma og hefur verið mér einstaklega góður, nú tek ég myndir fyrir Samsung sem þeir birta á Instagram hjá sér,“ segir Leclercq.
„Svo nú vinn ég á Hrauni og tek myndir af hrauni, þetta er algjörlega stórkostlegt og einhvern daginn langar mig að skrifa bók um Ísland,“ segir Julian Leclercq, ljósmyndari og mikill Íslandsáhugamaður, að skilnaði.