Aragrúi af fólki við gosstöðvarnar

Fólk hefur verið að hætta sér inn á hættusvæði eldgossins …
Fólk hefur verið að hætta sér inn á hættusvæði eldgossins en það var afar tilkomumikið í dag eins og sjá má. Ljósmynd/Ísleifur Elí

„Það er aragrúi af fólki upp frá núna. Það var óformleg talning rétt fyrir tíu og þá voru um það bil fjögur hundruð bílar á bílastæðinu við Skála-Mælifell,“ segir Guðni Oddgeirsson, með svæðisstjórn á svæði 2 og félagi í björgunarsveitinni Þorbirni.

Segir hann að fólk sem gangi upp að gosinu Meradalsleiðina sé að hætta sér heldur nálægt hættusvæði en einnig milli gígsins sem er virkur og nyrsta gígsins sem er koðnaður niður. Er fólk því að hætta sér á svæði þar sem nánast er ekki hægt að sækja það nema þyrlan sé laus, að sögn Guðna.

Töluvert lengri leið

Bætir hann við að leiðin sé töluvert lengri en seinustu tvær. Í raun sé bara ein þægileg leið að gosinu.

„Gamla A-leiðin er orðin töluvert lengri, ef þú ætlar að reyna að komast upp að þessu gosi. Við ráðleggjum fólki að vera ekki að labba, leggja við Reykjanesbraut eða Vigdísarvallaleið þar sem fólk er að labba einhvers staðar yfir hraunið því þetta er mjög torfært svæði og vont að vera með fólk bara einhvers staðar á hrauninu ef það svo villist af leið,“ segir Guðni.

Greinir hann frá því að ekki hafi verið mikið um að vera í byrjun kvölds en síðustu tíma hafi fólk hins vegar verið að gera sér ferð. „Ég kom nú á vakt um fimmleytið og þá er fólk náttúrlega að klára vinnu og gott veður og svona. Þannig að það er bara búið að vera stríður straumur upp eftir núna síðustu tíma.“

Vonar að nóttin verði áfallalaus

Hefur þetta gengið nokkuð snurðulaust hingað til, og vonar Guðni að nóttin verði áfallalaus

„Það eru náttúrlega einhverjir fótalúnir en engin meiðsli þannig séð,“ segir hann. Svæðið verður mannað í alla nótt af bæði björgunarsveitarfólki og lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert